12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2094)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að sveitirnar og kaupstaðina mundi ekki muna mikið um þessa útgjaldaaukningu. Jeg er hræddur um, að þau líti öðruvísi á þetta. Nýlega átti jeg tal við mjög merkan mann úr sveit. Undraðist hann stórum og spurði, hvort þingið virkilega ætlaði að leggja þessa byrði á sveitarfjelögin. Hann mun ekki sá eini. Stjórnin mun eiga eftir að verða þess vör.

Fyrir 2 árum voru samþ. lög, sem heimila sveitunum að leggja niður skóla og koma upp farkenslu í þeirra stað. Er í sjálfum kennaralaunalögunum næg heimild til þess að segja kennurum upp stöðu þeirra, vegna breytinga á fræðslufyrirkomulaginu. Jeg skildi á hæstv. forsrh. (JM), að hann í raun og veru væri hlyntur alþýðumentun vorri. En ef svo er, þá hefði hann aldrei lagt til, að bætt væri gjöldum á sveitirnar, ef hann hefði athugað áhrif þess. Það er hin harðasta árás, sem unt er að gera á alþýðumentun vora.

Um þetta þýðir ekki að halda lengri ræðu. Hv. deild verður að skera úr því, hvort hún telur rjett að færa þessi gjöld af ríkissjóði yfir á sveitarsjóðina. Því um fjársparnað fyrir þjóðina í heild er ekki að ræða hjer. Vænti jeg samt, að hv. deild fallist á till. nefndarinnar og felli frv.