12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2096)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Guðmundur Ólafsson:

Jeg get tekið undir með hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að mjer finst litlu mál skifta, hvort frv. þetta verður samþ. eða ekki, en mjer finst það alls ekki mjög varhugavert. (SE: Hv. þm. veit, hvað sveitarsjóðirnir þola.) Já, það veit jeg sannarlega, ekki síður en hv. 1. landsk. Jeg veit, að það er erfitt fyrir mörgum sveitarfjelögum. En jeg veit ennfremur, að eftir því sem ríkissjóði er skipað að greiða meira, verður að leggja meiri skatta á landsfólkið, og mjer finst nú sveitirnar vera hluti af landinu og beri því alt að sama brunni. Enda tel jeg ekki tilfinnanlegt fyrir sveitirnar, þó aldrei nema þetta gjald sje lagt beint á þær, því að hjer er um ekkert stórfje að ræða, þó að það sje helmingurinn af dýrtíðaruppbót kennaranna.

Að hjer sje um svo stórt spursmál að ræða, að það geti skapað andúð gegn kennurunum, ef frv. gengur fram, nær engri átt, að minsta kosti ekki gegn þeim kennurum, sem á annað borð eru sæmilega liðnir, sem jeg held að flestir sjeu. Er jeg því viss um, að þeir verða alveg eins vel liðnir eftir sem áður, þó að þessi hálfa dýrtíðaruppbót þeirra verði lögð á sveitarfjelögin. Og má í þessu sambandi benda á, að ekki voru prestarnir ver liðnir áður, er þeir fengu öll laun sín frá söfnuðunum.

Jeg hefi litið öðruvísi á 1. gr. frv. en hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Jeg hefi skilið ákvæði hennar á þann veg, að ef hjeruðin þyrftu ekki á kennaranum að halda allan skólatímann, til þess að veita öllum börnum fræðsluhjeraðsins hina lögskipuðu fræðslu, þá mætti slíta skólanum, eða nota tímann, sem afgangs yrði, til unglingafræðslu. Og að laun kennara væru miðuð við lengd skólatímans, mælir öll sanngirni með.

Í mínu hjeraði er það skoðun margra, að betri not verði yfirleitt af fræðslunni, ef hinir eiginlegu barnaskólar væru látnir standa sem styst að þörf er á, en aftur bætt við unglingaskólum. Á þessari skoðun hefir ekki bólað alllítið hjer á Alþingi undanfarið. Þessu álít jeg, að hægra yrði að koma við, ef frv. það, er hjer liggur fyrir, yrði samþ., því nú verða hjeruðin að sitja hinn ákveðna tíma með kennarana, ef þau eiga að fá eitthvað af launum þeirra greitt úr ríkissjóði, hvort sem þau hafa beint með þá að gera eða ekki.

Að síðustu: Mjer finst auðskilið mál, sem ekki sje hægt að neita, að það muni koma líkt niður á menn, hvort þeir greiði gjaldið til ríkissjóðs eða beint til starfsins.