12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2098)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Guðmundur Ólafsson:

Það var hreinasti misskilningur hjá háttv. frsm. (SE), er hann var að tala um að við háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefðum umboð frá kjósendum okkar til að vera með þessu frv. Jeg tók það skýrt fram, að jeg teldi það líkt fyrir gjaldendur, hvort þeir greiða gjaldið til ríkissjóðs eða beint til kennaranna.

Hvað umboðið snertir, sem háttv. frsm. var að tala um, virðist ekki úr vegi að beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann hafi haft umboð frá öllu landinu hjer um daginn, þegar hann fylgdi verðtollinum. (SE: Það mátti til). Já, það má vel vera, en svo er einmitt oft, að maður verður að ráða fram úr því sjálfur, hverju maður fylgir og hverju ekki.

Annars gaf jeg enga ástæðu til, að háttv. frsm. færi að koma með hin ýmsu skemtilegu nýyrði, eins og t. d. títuprjónsatriði o. fl., sem hann var að slá um sig með. Að síðustu vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að jeg tel ekkert misráðið, þó að frv. þetta nái fram að ganga, heldur hið gagnstæða.