12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg skal strax taka það fram, að eftir mjög vendilega athugun á fræðslulögunum komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að síst væri ástæða til að hrapa að breytingu þeirri, sem frv. þetta fer fram á. Hafi nefndinni því mistekist í tillögum sínum, er það sannarlega óviljandi, því að hún athugaði báðar hliðar málsins, bæði kostnaðarhliðina, og hina menningarlegu hlið þess.

Eins og hv. frsm. rjettilega hefir tekið fram, þá er sparnaður sá fyrir þjóðina, er af því leiddi, að frv. þetta yrði samþykt, svo hverfandi lítill, eða jafnvel enginn; útgjöldin aðeins flutt úr einum vasa landsmanna yfir í annan, og þarf því ekki að fjölyrða um þá hlið málsins. Hin — menningarhliðin — er því að minni hyggju mergurinn málsins, og þarf ekki að ganga gruflandi að því, að kæmist breytingar þær, er frv. gerir ráð fyrir, í framkvæmd, væri hætt við, að það myndi draga mjög úr fræðslu barna. En um það geta þó víst flestir verið sammála að góð barnafræðsla er grundvöllurinn undir alþýðumentuninni og þá um leið undir menningu þjóðarinnar yfirleitt.

Jeg gæti að vísu vel tekið í þann streng, þar sem jeg nú hefi fengist við kenslu í 30 ár, að alþýðufræðsla sú, er unglingar fengu áður, var eigi lakari en nú. En meðan fræðslulögin eru í gildi má eigi gera neitt til þess að draga úr ágæti þeirra. Nái frv. þetta fram að ganga, þá er stoðunum kipt undan lögunum. Að vísu hefir það, því miður, komið í ljós, að mjög hefir verið vikið frá lögunum og að fræðsluhjeruðin hafa af mörgum ástæðum ekki sjeð sjer fært að fylgja ítarlega ákvæðum þeirra. Afleiðingin hefir orðið sú, að börnin eru lakar að sjer nú en áður en fræðslulögin komu til sögunnar. Þetta er æðiþungt á metunum, þegar það er athugað, hversu miklu fje varið er til barna- og unglingafræðslunnar. Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) kvaðst álíta, að unglingafræðslan ætti að bæta það upp, ef ekki væri haldinn næglega langur skóli í sveitinni. Jeg vildi aðeins benda háttv. þm. á það, að barn, sem ekki er læst, af því að það lærði ekki að lesa í barnaskólanum, þegar það átti að gera það, það lærir það ekki í unglingaskólanum og jafnvel aldrei.

Svo bið jeg hv. deildarmenn að athuga málið með velvild og skilningi, því þeir munu þá komast að raun um, að hjer ræðir um þýðingarmikið mál.