15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Nefndin hefir tekið þetta frv. til yfirvegunar á ný, svo og jafnframt þær brtt., sem fram komu við 2. umr. og síðar. Nefndin hefir orðið þess vör, að fleiri hv. þm. hafa haft í hyggju að koma fram með brtt., þar á meðal eina um línu frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar. Að því er þessar brtt. snertir, þá verður nefndin að vísa til nál. síns, en þar leggur hún á móti því, að samþ. nýjar símalínur, án þess að nægur undirbúningur hafi verið gerður og það meðal annars ítarlega rannsakað, hverjar leiðir eigi að fara í hverju einstöku tilfelli, og það þá sjerstaklega athugað, að línur sem seinna kynnu að verða lagðar innanhjeraðs, mættu komast í samband við þær línur, sem nú verði ákveðnar, með sem minstum kostnaði. Þótt landssímastjóri áætli lauslega kostnað slíkra lína, þá er þar um áætlun að ræða, sem ekki verður bygt á að fullu. Slíkar lauslegar áætlanir munu byggjast að mestu á vegalengdinni einni, enda ekki hægt að taka tillit til ýmsra erfiðleika, sem landslag, jarðlag og aðrar ástæður geta haft á kostnaðinn, nema farið sje um línustæðin af þeim, sem áætlunina gerir. Nefndin telur því rjettast, að þær till., sem hjer liggja fyrir, verði ekki samþ., heldur verði málinu vísað til stjórnarinnar, í því trausti, að hún feli landssímastjóra að rannsaka vandlega þessi línustæði við fyrsta tækifæri. Þetta er till. allra nefndarmannanna, að einum undanskildum.

Um símalínuna að Núpi vil jeg sjerstaklega geta þess, að mjer er að vísu kunnugt, að auðvelt er að leggja þessa línu og ekki nema um eina leið að ræða. En þar sem ekki kemur til mála, að hún verði lögð á næsta ári, þá telur nefndin rjettast að láta hana fylgjast með hinum og vísa frv., ásamt brtt., til stjórnarinnar.