15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2129)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hefir nú gert grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar í stórum dráttum, og af því að jeg gat ekki orðið hinum nefndarmönnunum fyllilega sammála, er rjett, að jeg geri nokkra grein fyrir ástæðum mínum.

Jeg er nefndinni sammála um það, að án frekari undirbúnings sje ekki rjett að taka upp þær nýju línur, sem nú er farið fram á, en mjer finst það bæði einarðlegra og drengilegra að halda áfram að fylgja því frv., sem nefndin var einu sinni búin að ljá fylgi sitt. Á jeg þar við símalínuna frá Mýrum að Núpi, sem nefndin hafði komið sjer saman um að mæla með við 2. umr. Að því er snertir hinar brtt., þá þætti mjer betur hlýða að bera fram till. til þál. um að skora á stjórnina að undirbúa þau mál undir næsta þing, en þetta ráð hefir nefndin þó eigi viljað taka upp. Jeg er hræddur um, að ef þannig koma fram till. af handahófi og símakerfið að mun fært út, í vændum um bygingu síðar, að þess verði ekki nógu vel gætt að leggja símalínur fyrst þangað, sem þörfin er allra brýnust, þar sem einangrunin er mest eða svo stendur á, að ilt er að komast í samband við lækni. Verð jeg að líta svo á, að besta lausnin á málinu sje, að stjórninni sje falið það á þennan hátt.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta, en læt mjer lynda, að atkv. skeri úr ágreiningnum milli mín og hinna nefndarmannanna. Jeg býst að vísu við, að meirihl. nefndarinnar sigri, en vildi aðeins með þessu gera grein fyrir afstöðu minni.