15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2130)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Ásgeir Ásgeirsson:

Þetta frv. hefir sætt næsta einkennilegri meðferð hjá hv. nefnd. Við 2. umr. lagði hún til, að það yrði samþ., en nú vill hún, að því verði vísað til stjórnarinnar. Jeg á mjög erfitt með að finna nokkra fullnægjandi ástæðu fyrir þessum sinnaskiftum hv. nefndar. Úr því hún fjelst á það við 2. umr., að rjett væri að samþ. þessa línu frá Núpi, og að engir verulegir örðugleikar væru þar á, þá var ólíklegt, að örðugleikarnir myndu vaxa nokkuð við 3. umr. Þessi afstaða háttv. nefndar er þeim mun undarlegri, þar sem hv. frsm. hefir lýst yfir því, að þessi lína þurfi ekki frekari rannsóknar við. Mun það einsdæmi, að nefnd hafi snúist svo milli umr., og væri vonandi, að sá siður yrði ekki upp tekinn. Jeg vona nú, að háttv. deild svari þessari tillögu nefndarinnar sem vert er, en geri sig ekki seka í sama hringli.

Að endingu vil jeg svo þakka hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fyrir afstöðu hans í málinu.