15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (2131)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af því, sem hv. frsm. (JAJ) sagði, þá vil jeg taka það fram, að stjórnin mun að sjálfsögðu láta landssímastjóra rannsaka þessi línustæði við tækifæri, — jeg segi við tækifæri, af því að jeg lít svo á, að ekki sje gerlegt að láta fara sjerstakar ferðir til þess eins að rannsaka línustæði eins og þetta, sem svo langt á í land hvort eð er, heldur verði að sæta ferðum, sem falla í öðrum erindum. Annars held jeg, að nýjum línum liggi ekki svo mjög á að komast á símalögin, þar sem búið er að ákveða, að enga línu skuli leggja í ár eða að ári, og á árinu 1926 er þegar búið áð ákveða nokkrar línur, sem ganga skuli fyrir. Jeg skal annars ekki leggjast neitt á móti þessari stuttu línu hv. þm. V.-Ísf., þar sem línustæðið er þegar fullrannsakað og kostnaður lítill. En að því er snertir það hringl hv. nefndar, sem hv. þm. V.-Ísf. kvartaði um, þá vil jeg benda á það, að það hefir oft komið fyrir, að nefnd hafi farið svo að, þegar viðbúið hefir verið, að kostnaðarauka mikinn leiddi af einhverri till., sem nefnd hefir mælt með áður. Kom þetta síðast fyrir nú við 3. umr. fjárlaganna, er hv. fjvn. tók aftur till. um styrkveiting til hrepps nokkurs af því að fram voru komnar beiðnir frá fleiri hreppum, sem nefndin sá sjer ekki fært að verða við.