15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (2133)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Ásgeir Ásgeirsson:

Þótt það kunni að vera ástæða til að fresta að taka ákvarðanir um línur, sem ekki hafa verið rannsakaðar, þá er fyrir því ekki meiri ástæða til að fresta því um hinar, sem rannsakaðar hafa verið. Landssímastjórinn veit alt, sem þörf er á, um línuna að Núpi. Ástæður hv. þm. (JAJ) gilda því aðeins brtt., en ekki frv. í sinni upprunalegu mynd. Að því er snertir orð hv. frsm. um það, að stöðin verði flutt að Gemlufalli, þá er það aðeins einni ástæðunni fleira til að hraða þessu máli, því með þessu lengdist fjarlægð Núps frá síma um helming. Hjer stendur auk þess svo á, að nú verður innan skamms sent skip á þessar slóðir með ýmiskonar flutning, og væri því kostnaðarlítið að senda það, sem til símans þarf, með þeirri ferð. Gæti því komið til mála að gera þessa línu innan skamms, ef þá fjárveiting fengist til. Ef það er dregið að koma línunni inn í símalögin, þá verður sennilega miklu dýrara að gera línuna, þegar að því kemur. Jeg sje ekki, að enn hafi komið fram nein skynsamleg ástæða fyrir því, að rjett sje að fresta samþ. frv. Hv. nefnd virðist staðráðin í að samþ. þetta á næsta þingi, en þá sýnist mjer eins gott að gera það í dag, sem annars yrði gert á morgun.