15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (2135)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get talað af kunnugleik um eina af þessum línum, sem hjer er um að ræða, og vildi því leggja til þessara mála. Mig hefir annars furðað á því, sem hjer hefir borið við. Fyrst kemur fram till. um línu, sem er í alla staði vel undirbúin, en þegar komið er að því, að hún verði afgreidd út úr deildinni, þá rignir alt í einu niður öðrum till. um línur, sem eru með öllu óundirbúnar. Jeg get tekið það fram, að jeg hefði haft gilda ástæðu til að koma fram með eina slíka linu af hálfu kjördæmis míns, en mjer datt ekki í hug að gera það, fyrst hún var ekki undirbúin til fulls. Að því er snertir þá línu, sem jeg er kunnugastur, fram Lundarreykjadal, þá skal jeg taka það fram, að jeg efast um, að staðurinn sje rjett valinn. (PO: Línan kemur með því móti lengra fram í dalinn). Það er rjett, en hún er þar á næsta afskektum stað. Þar væri sneitt hjá þeim stað, Lundi, þar sem allar samkomur sveitarinnar eru haldnar, liggur í miðri sveit og er auk þess kirkjustaður. Þykist jeg og fullviss þess, að þetta sje ekki eindreginn vilji hjeraðsmanna, því jeg hygg, að þeir myndu fremur vilja leggja línuna að Lundi. Jeg vildi aðeins skjóta þessu fram, sem dæmi upp á það, að betra er að slík mál sjeu rannsökuð vel áður en teknar eru ákvarðanir um þau.