15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Sveinn Ólafsson:

Jeg mun ekki tefja umræður mikið að sinni. En jeg verð að taka það fram hversvegna jeg hallaðist á sínum tíma að því að mæla með línunni frá Mýrum að Núpi.

Eins og öllum er kunnugt, er á Núpi alþýðuskóli Vesturlands, stofnun, sem hjeraðsbúum er ant um, og mjer fanst þessi skóli illa settur án símasambands við umheiminn. Jeg býst við því, að samband hafi svipaða þýðingu fyrir þennan skóla eins og t. d. bændaskólana og Eiðaskóla. En þeir skólar hafa allir fengið símasamband, og það hefir verið kept að því, mjög eindregið, að koma þeim í það samband. Auk þess er þessi leið að Núpi örstuttur spölur og kostnaður við lagninguna því lítilfjörlegur. Af því að þarna er aðalmentastofnun hjeraðsins, þá er líklegt, að hjeraðsbúar mundu, svo sem dæmi eru til úr öðrum hjeruðum, ganga að því að leggja sjálfir fram meira fje en áskilið er hjeruðunum við venjulegar símalagningar, til þess að fá línuna bygða sem fyrst. Það hefir komið fyrir, að hjeruðin hafa lagt fram stundum 2/3 kostnaðar og stundum meira, þegar líkt hefir staðið á og hjer, er um örlitla vegalengd er að ræða. Mjer þykir ekkert ólíklegt, að þessi lína geti orðið bygð á næsta ári. Það er sem sje til á fjárlögum dálítil upphæð til viðgerða og efniskaupa. Og af þessari upphæð hefir stundum verið varið nokkru fje til nýbygginga, þegar sjerstaklega hefir staðið á og hjeraðsbúar hafa viljað leggja mikið kapp á að fá línu bygða. Þannig gæti þessi lína komið fljótt upp, án teljandi kostnaðar fyrir ríkissjóð, ef hæstv. stjórn vildi styðja hjeraðið til þess.

Jeg legg áherslu á það, að það er meiri ástæða til þess að samþykkja þessa línu en aðrar þær línur, sem hjer hafa verið nefndar, og þær ástæður hefi jeg talið og þarf ekki að endurtaka neitt af þeim. En jeg vil endurtaka það, sem hjer hefir verið sagt um hinar aðrar línur, sem hv. þdm. hafa borið hjer fram, að rjett er, að stjórnin athugi þær og búi málið í heild sinni betur undir en ætla má, að hjer sje gert. Þörfin er vitanlega misjöfn fyrir símasamband, og það er enganveginn víst, að fult tillit sje tekið til brýnustu þarfanna í þessum brtt. hv. þm.