16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get yfirleitt verið þakklátur hv. fjvn. fyrir meðferð hennar á fjárlagafrv., og þykist jeg sjá, að hún hefir starfað með sömu hugsun fyrir augum og háttv. Nd., sem sje þeirri, að í bráð yrði að hlífa ríkissjóði við öllum útgjöldum, öðrum en þeim, sem óhjákvæmileg eru.

Að vísu hækka útgjöldin samkvæmt till. hv. nefndar um nálægt 200 þús. kr., en meiri hluti þeirrar hækkunar, eða 126 þús. kr., eru hreinar leiðrjettingar á útgjaldaáætluninni, og er það ekki nema nauðsynlegur þáttur í þeirri viðleitni að reyna að fá sem gleggst yfirlit yfir fjárhag ríkissjóðs.

Það verður að viðhafa fulla varkárni og áætla ekki útgjöldin minni en búast má við, að þau verði.

Langstærsta hækkun hv. nefndar, eða 116 þús. kr., eru vextir af innlendum lánum. Hv. frsm. (JóhJóh) gerði grein fyrir þessari till., og hefi jeg við þá greinargerð hans það eitt að athuga, að háttv. nefnd virðist ekki hafa stigið hjer sporið til fulls, því að þessi upphæð mun varla nægja, nema útlánsvextir verði lægri á næsta ári en þeir eru nú.

Af öðrum hækkunarliðum hv. nefndar eru fjórir, sem nokkru verulega nema, og eiga allir rjett á sjer, eða það sýnast að minsta kosti góðar ástæður fyrir þeim. Eru það laun handa bæjarfógetafulltrúa til lögtaksgerða hjer í Reykjavík, 4000 kr., til byggingar fangahúsa í tveimur kaupstöðum, 16000 kr., til landhelgisgæslu 10000 kr., og loks hækkun á áætlun viðhaldskostnaðar flutningabrauta 25000 kr., sem jafnrjett væri að telja leiðrjettingu, eða hækkun áætlunar, sem útgjaldaauka Enn er ekki sjeð, hvernig fer um vegalagafrv. það, sem fyrir þinginu liggur. En hvernig sem afdrif þess verða, þá verður ekki komist hjá því að leggja fram fje til Holtavegarins, og er því engin vanþörf á að hækka þennan lið. En ef það frv. verður samþykt, þá er jeg ekki í neinum vafa um, að áætlunarupphæð þessi er enn of lág. Þannig hefi jeg talið hækkanir hv. fjvn., sem nema um 180 þús. kr. Þá eru eftir um 20 þús. kr. í smáhækkunum. Þó að sumar þeirra kunni að orka tvímælis og deilt hafi verið um þær í hv. Nd., þá verður ekki annað sagt en að hv. nefnd hafi stilt mjög í hóf hækkunartill. sínum, eftir hina harðhentu lækkun, sem stjfrv. hafði orðið fyrir í hv. Nd.

Jeg ætla mjer ekki að gera brtt. einstakra þm. að umtalsefni nú, en ætla aðeins að láta í ljósi þá ósk mína, að hv. deild haldi áfram meðferð þessa máls á sama grundvelli og hún hefir gert nú, því jeg vona, að hv. deild sje það ljóst, að fjárhag ríkissjóðs er svo komið, að óhjákvæmilegt er að halda fast í taumana og reyna að grynna á skuldunum eftir því, sem unt er. Með því eina móti má vonast eftir því, að ekki verði langt að bíða þess, að hægt verði að ráðast í þær framkvæmdir, sem nú verður að fella niður sakir fjárhagsvandræða.

Jeg skal taka það fram, að því miður er ekki ennþá með brtt. hv. fjvn. fengin nauðsynleg leiðrjetting til hækkunar á ýmsum liðum fjárlaganna til þess, að áætlunin sje ekki nú þegar röng. Sjerstaklega er það ein upphæð, sem fjármálaráðuneytið skrifaði hv. fjvn. um. Við samningu fjárlagafrv. var dýrtíðaruppbótin áætluð 50%, því að þá var ekkert útlit fyrir, að hún mundi verða hærri en á yfirstandandi ári. En síðan um áramót hefir vöruverð farið hækkandi hjer sem annarsstaðar í heiminum, miðað við gull. Er jeg tók við fjármálastjórninni, bað jeg hagstofuna um að athuga dýrtíðaruppbótina og reikna út, hver hún mundi verða, ef miðað væri við verðlag vöru í byrjun apríl. Fjekk jeg það svar, að hún mundi vera um 60%, og má því ekki áætla uppbótina lægri en sem svarar því. Verður því með einhverju móti að ná inn í frv. um 168 þús. kr. í þessu skyni. Að endingu skal jeg geta þess, að þetta ætti ekki að þurfa að verða til þess, að fjárlögin yrðu afgreidd með tekjuhalla, því að úr því að verðtollurinn er genginn í gildi, þá mætti athuga, hvort ekki væri hægt að hækka tekjulið frv. um stimpilgjald.