20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (2153)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Um ástæðuna fyrir breytingum þeim á lögunum um bann gegn botnvörpuveiðum, sem farið er fram á að gerðar sjeu með þessu frv., þarf jeg ekki að fjölyrða nú, því að í aths. við þetta frv. er gerð grein fyrir því í höfuðdráttum. Breytingin gengur út á það að gefa skipstjórum meira aðhald í þessu efni en nú hafa þeir.

Jeg þykist vita, að sumum muni þykja þessi ákvæði allhörð, en öðrum aftur á móti hjer ekki nógu langt farið, eins og brtt. sú sýnir, sem þegar er fram komin við þetta frv.

Það kemur oft fyrir, að á botnvörpungum, sem eru að veiðum í landhelgi, er breitt fyrir númer og nöfn, til þess að villa á sjer heimildir og gera bátum, sem eru sjónarvottar að lögbrotum og sem botnvörpungarnir geta boðið birginn, ómögulegt að koma fram kæru á hendur þeim fyrir lögbrotið. Jeg vildi skjóta því til hv. sjútvn., sem jeg geri till. um að fái mál þetta til meðferðar, hvort ekki væri ástæða til að taka upp í frv. sjerstök ákvæði um það, að það varðaði skipstjóra fangelsi eða betrunarhúsvinnu að fara svo að.

Mjer hefir verið sagt, að það muni hafa komið fyrir þó nokkrum sinnum, að botnvörpungar hafa komið hjer inn á höfn þannig, að sóti eða öðru þvílíku væri roðið á nöfn og númer, svo að ólæsilegt sje, og þarf auðvitað engum blöðum um það að fletta, í hvaða augnamiði slíkt er gert.

Um frv. það, sem hjer er næst á dagskránni, vildi jeg aðeins benda á það, að þar sem ákvæði þess lúta að því, að sektir fyrir brot á lögunum um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi skuli greiddar í gullkrónum, þá mundi ef til vill vera rjettara að taka þau ákvæði upp í lögin sjálf. Jeg nota þetta tækifæri

til þess að skjóta þessu til sjútvn. til athugunar.

Einnig vil jeg nú nota tækifærið til að beina spurningu til hv. forsætisráðherra um atriði, er snertir þessi mál.

Það hefir ekki svo sjaldan komið fyrir, að varðbátarnir, sem ekki eru færir um að taka botnvörpunga, hafa hitt þá í landhelgi og getað tekið af þeim nafn og númer. Slíkar kærur munu hafa verið sendar stjórnarráðinu úr Ólafsvík. Og jeg hefi nú einmitt fengið brjef sunnan úr Garði frá eiganda báts þess, sem annaðist landhelgisgæsluna s. l. ár. Hefir sá bátur kært 5 togara, og voru 4 af þeim íslenskir. Vil jeg nú spyrja hv. forsrh. að því, hvort þessum kærum hafi verið sint eða ekki. Er nauðsynlegt, að rannsakað sje, hvort slíkar kærur eru á fullum rökum bygðar, og ef svo reynist, þá að fylgja þeim fram, svo sem lög standa til. Má eigi þyrma lögbrjótunum, heldur fylgja fram lögunum til hins ítrasta.