20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (2156)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ágúst Flygenring:

Flm. frv. þessa hefir tekið það rjettilega fram í greinargerð fyrir frv., að fullnægjandi bót verði eigi ráðin á þeim vandræðum, sem stafa af botnvörpuveiðum í landhelgi, með öðru en aukinni landhelgisgæslu. Annað bjargráð er ekki til. Og er þá fyrst fyrir, að nota betur en gert hefir verið varðskip Dana. Er það atriði, sem þingið ætti að taka til rækilegrar athugunar, að þeir kraftar verði notaðir, sem við eigum völ á. Hitt tel jeg alls enga bót, sem frv. þetta ákveður, að hegna hinum fáu innlendu skipstjórum, sem brotlegir verða, en láta fjölda útlendinga sleppa óhegnt. Efast jeg líka um, að margir þingmanna þekki þá baráttu fyrir tilverunni, sem sjómennirnir á botnvörpuskipunum heyja. Víða er baráttan fyrir lífinu hörð, en óvíða eins og þar. Skipstjórunum er trúað fyrir dýrum skipum og dýrri útgerð og lagt fyrir þá að fiska vel. Og þeir vita það, að ef þeim bregst aflinn, þá verða þeir tafarlaust reknir. Útgerðarmenn hafa rekið skipstjóra sína fyrir það eitt að fiska ekki. Þeir hafa meira að segja gert það margsinnis. Vesalings skipstjórarnir hafa því blátt áfram sverðið hangandi yfir höfði sjer. Og við skulum nú taka dæmi til skýringar þessu máli. 40–50 erlendir togarar eru að veiðum í landhelgi austur við Landeyjasand. Íslenskur togari kemur þar að, er að veiðum fyrir utan línuna, og fær ekki fisk úr sjó. Hvað á þá skipstjórinn að gera? Hvað mundum við gera í hans sporum? Auðvitað fara inn fyrir línuna. Svo ber varðskipið að. Einmitt þessi togari er ef til vill tekinn — og kanske eingöngu vegna þess, að hann vantar t. d. loftskeytatæki, sem hinir hafa. Og svo á skipstjórinn að missa skipið, en hinir sleppa með alt saman! Þeir fá feng og frægð, en sá eini handtekni skömm og skaða.

Í greinargerð fyrir frv. er þess getið, að fá dæmi muni vera til þess, að útgerðarmaður hafi svipt skipstjóra skipi fyrir að vera staðinn að ólöglegum veiðum. Jeg vil benda á hið gagnstæða. Að því munu vera mörg dæmi, að skipstjórar hafi óbeinlínis verið sviftir skipstjórn fyrir að stunda ekki veiðar í landhelgi — eða með öðrum orðum: fyrir að fiska ekki nógu vel, af því að þeir hafa hlífst við að fremja lögbrot. Og það vita allir, sem eitthvað þekkja til, að sumir þeirra, sem brotlegastir eru, hafa aldrei verið teknir. Og svo á að fara að semja lög um að þeir, sem eru svo óhepnir að verða teknir, sæti jafnvel fangelsi, auk þess að missa stöðuna.

En með þessu verður ekki bygt fyrir lögbrotin, heldur aðeins með aukinni strandgæslu. Það er tíska nú að semja um alt sem allra ströngust lög. En Alþingi ætti að gæta að því, hvað fært er, og gera eigi helst það, sem er þannig, að órjettlætið og misrjettið eins og æpir á mann.

Þetta er í alla staði órjettlátt. Um það þarf ekki fleiri orð. Og jeg er alveg á móti stefnu frv. Aukið eftirlit er það, sem að á að keppa, en ekki sífelt harðari sektir.