20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Hæstv. forsrh. (SE) hefir nú skýrt frá því, að kærurnar hafi verið sendar til hlutaðeigandi dómara. En það er ekki nóg; stjórnin verður að hafa eftirlit með því, að þær verði rannsakaðar til hlítar og leiddar til lykta, svo sem lög standa til.

Það er alveg rjett hjá hv. 1. þm. G.- K. (ÁF), að hegningarákvæði frv. míns ná aðeins til íslenskra skipstjóra, því að til útlendinga er ekki hægt að láta þau ná. En ekki get jeg sjeð, að það sje nein ástæða gegn samþykt frv. Erlendis mun það altítt að setja slík ákvæði. Er það t. d. svo í Englandi, að skipstjórar fá ekki að stjórna skipi í ákveðinn tíma, eftir að þeir hafa verið staðnir að landhelgisbroti. Eru þar vátryggingarfjelög, er greiða sektirnar, og eru þau svo ströng, að skipstjóra, sem orðið hefir brotlegur, og mist skipstjórnarrjettindi, má ekki einu sinni, meðan á refsingartíma hans stendur, lögskrá sem háseta á skip það, sem hann hefir framið landhelgisbrotið á. Og þar sem sjerstaklega vantar hjer slíka vátryggingu, væri það síst að ófyrirsynju, að slík refsingarákvæði yrðu sett í landslög. Hæstv. forsrh. (SE) og hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) kom saman um það, að eina ráðið til bóta í þessu efni væru auknar strandvarnir. Jeg játa það fyllilega rjett að vera, og mjer er það ljóst, að í viðunanlegt lag kemst strandgæslan ekki fyr en við tökum hana í okkar hendur, þannig, að við höfum fullkomið landhelgisgæsluskip til forystu í þeim málum, en eins og nú stendur, blasir ekki sú úrlausn við.

En þó að rjett sje það, sem hv. 1. þm. G.-K. sagði, að einstaka skip hafi alt af sloppið, og jafnvel verstu lögbrjótarnir, þá mælir það alls ekki í gegn því, að rjett sje að setja þessi ákvæði, því ef nú svo tækist til, að í þessa ófyrirleitnu lögbrjóta næðist, ætla jeg, að hv. 1. þm. G.-K. hljóti að vera mjer sammála um það, að þeir væru vel að slíkri refsingu komnir, og verðskulduðu hana ekki síður en hinir, sem minni hefðu varann á sjer.

Hv. 1. þm. G.-K. gaf annars upplýsingar, sem mjer þykja afar eftirtektarverðar. Hann sagði, að útgerðarmenn blátt áfram skipuðu skipstjórunum að veiða í landhelgi, og ef þeir gerðu það ekki, þá ættu þeir það á hættu að vera reknir af skipunum. Ef svo er, þá ber því síst að neita, að það er ærin freisting fyrir skipstjórana að veiða í landhelgi, og því nauðsynlegt að samþ. þetta frv., sem áreiðanlega leggur allmikil höft á þessa freistingu skipstjóranna og gefur þeim sjálfum, ef svo tekst til, tækifæri til að þreifa á, hvaða verk þeir eru að vinna.

Sami hv. þm. (ÁF) mintist á, hve mikil freisting væri fyrir íslenska togara að fara í landhelgi til veiða, þegar fjöldi útlendra togara fengju mokafla innan landhelgislínunnar, en fisklaust væri fyrir utan. Nefndi þm. fiskislóðina austur við Landeyjasand. Jú, auðvitað er það freisting, en er það ekki líka freisting fyrir skipstjórana að sjá opnu bátana, t. d. í Garðsjónum, afla vel, þegar litið er um fisk utan við línuna? En láti skiptsjórarnir undan freistingunni, sem ekki stendur á þeim að gera, ræna þeir björginni frá bláfátækum barnamönnum, sem af veikri getu eru að reyna að hafa ofan af fyrir sjer og sínum. Jeg hjelt einmitt, að hv. þm. mundi taka þetta dæmið, því það er nær honum, þar eiga hlut að máli hans eigin kjósendur, sem jeg veit, að hann telur skyldu sína að verja og vernda fyrir öllum ólöglegum átroðningi og yfirgangi, og veit jeg, að það muni tæplega hafa farið fram hjá honum, kveinstafir þeirra, sjómannanna þar syðra, yfir því, hve þeir eru grátt leiknir af lögbrjótunum. Og væri þá ekki eðlilegt að refsa skipstjórunum þunglega fyrir slíkt, og það þannig, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að það komi niður á þeim sjálfum? Og einmitt það, að útgerðarmennirnir reki þá til þess að fiska í landhelgi, er afar mikilsverð ástæða fyrir að gera að lögum ákvæði þessa frv. míns. Annars er það skiljanlegt, að hv. 1. þm. G.-K. sje þetta mál að einhverju leyti sárt, þar sem hann á sjálfur botnvörpung; en annars skal það tekið fram, að hann hefir sagt mjer, að hann hafi bannað sínum skipstjóra veiðar í landhelgi. Og er hann þá líklega eina undantekningin meðal botnvörpueigenda, hvað þetta snertir.