16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi lítið að segja við þessa umr. annað en það, að jeg er hv. nefnd þakklátur fyrir brtt. þær, sem hún hefir komið með við fjárlögin og snerta mig. Skal jeg þá fyrst nefna fjárveitinguna til fangahúsanna í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Er óhjákvæmilegt að byggja þau, og þá vitanlega úr steini. Það er að vísu engin áætlun til um bygginguna á Ísafirði, en það er búist við, að hún muni kosta um 8000 kr. Aftur á móti er áætlun um fangahúsið í Vestmannaeyjum fyrir hendi, og eins og hv. frsm. (JóhJóh) tók fram, þá nemur hún 11 þús. kr., en þar fylgdi með, að draga mætti úr kostnaðinum, svo að hann yrði um 9 þús. kr., og líklega er hægt að koma honum niður í 8 þús. kr., eftir upplýsingum, sem fyrir liggja. Ennfremur sje jeg ekki annað en að nauðsynlegt hafi verið að hækka 11. gr. A. 4a, um starfsmenn bæjarfógetans í Reykjavík. Þá er það 5. brtt. hv. nefndar, við 11. gr. B. 6 b, viðbót við styrkinn til landhelgisgæslu, til þess að útbúa björgunarskipið Þór til þess starfs. Geri jeg ráð fyrir, að 20 þús. kr. nægi í því skyni. Aftur á móti er jeg ekki eins ánægður með 8. brtt. nefndarinnar, um sjúkraskýli í Borgarfirði. Álít jeg, að rjettara hefði verið að lofa fjárveitingunni að standa eins og hún kom frá hv. Nd., sem sje 20 þús. kr., án þess að ákveða til hvaða hjeraðs það ætti að fara. Er það margra manna álit, að rjettara sje að hafa fjárveitinguna þannig, en veita hana þá á hverju ári og láta hana svo ganga til þeirra sjúkraskýla, sem best eru undirbúin, eða skifta styrknum á milli fleiri hjeraða, því að mörg hjeruð mundu gera sig ánægð með, að styrknum yrði skift niður á fleiri ár. Sú leið, sem hv. fjvn. hefir farið, getur aftur á móti leitt til þess, að um styrk þennan verði kapphlaup í þinginu á milli hjeraðanna, og er það mjög óheppilegt. Jeg er samdóma hv. frsm. fjvn. um ritfje biskups. Held jeg, að rjett hefði verið að láta bæði það og ritfje landlæknis halda sjer eins og það var í frv. stjórnarinnar. Jeg er þakklátur hv. nefnd fyrir viðbót hennar við 14. gr. B. III a, um laun mentaskóla. Hefir, eins og kunnugt er, verið gerð ráðstöfun til þess að fá hingað til skólans efnilegan kennara í klassiskum fræðum. Þó að jeg treysti mjer ekki til að festa hann, þá er það ekki af því, að jeg telji það ekki heppilegt, heldur af því, að jeg áleit, að til þess þyrfti heimild þingsins. Þykir mjer gott, að hv. nefnd hefir tekið svo í málið. Jeg er ekki viss um, að rjett hafi verið að lækka tímakaupið við sama skóla. En það er svo um þá fjárveitingu, að það má nánast líta á þessa upphæð sem áætlunarupphæð, sem þó ætti helst ekki að fara fram úr því, sem í stjfrv. var gert ráð fyrir. Þá er það 19. brtt. hv. nefndar, um námsstyrk ljósmæðraefna. Jeg skil ekki vel, hvað meint er með verðstuðulsuppbót. Býst jeg við, að það megi skilja það þannig, að það megi styrkja námsstúlkurnar eins og áður hefir verið gert, en styrkurinn til þeirra hefir verið meira en lögmæltur styrkur að viðbættri venjulegri verðstuðulsuppbót. Vænti jeg, að meiningin sje sú, að það megi nota svipaðan styrk og hingað til. Jeg held, að það sje svo ekki fleira, sem jeg þarf að minnast á. Jeg er yfirleitt þakklátur hv. fjvn. fyrir þær till. hennar, er snerta mentamál. Jeg hefði kosið, að hv. nefnd hefði sjeð sjer fært að koma fram með ríflegri viðbót við laun sjera Jóhannesar Lynge. Það var að vísu ekki ósennilegt, að upphæðin lækkaði, en mjer finst lækkunin of mikil. Það er kunnugt, að maður þessi var tekinn úr embætti sínu til ákveðins starfa. Hann á við fátækt að búa og þarfnast því fullra launa. Jeg þarf svo ekki að orðlengja um þetta mál. Hv. frsm. hefir tekið það fram, sem þarf, um þá Þórberg Þórðarson og Guðmund Bárðarson. Jeg skal taka það fram, að mjer þótti vænt um viðbótina til veðurathuganastöðvarinnar. Jeg geri ráð fyrir, að það verði að reyna að komast af með það, sem hv. nefnd hefir lagt til, en býst hinsvegar við, að það megi líta svo á upphæðina, að hún sje þar ekki svo fastákveðin, að ekki megi fara eitthvað fram úr henni eftir atvikum. Um brtt. einstakra þm. sje jeg ekki ástæðu til að tala; mun jeg við atkvæðagreiðsluna sýna afstöðu mína til þeirra.