22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Jeg flutti þetta mál inn á þingið, er mánuður var liðinn af þingtímanum. 20. mars var því vísað til hv. sjútvn., og eftir þriggja vikna tíma kemur hún fyrst fram með þetta nál. á þskj. 320, sem ekki hljóðar um annað en að nefndin hafi ekki getað komið sjer saman um málið. Jeg get nú ekki betur sjeð á þessum aðgerðum háttv. nefndar en að hún hafi dregið afgreiðslu málsins svo í þeim tilgangi einum, að nota hjer vald sitt til að hefta framgang málsins, ef vera kynni, sem trauðla þarf að efa, að það ætti fylgi meirihluta í þinginu. Því eins og menn kannast við, er hægt að grípa þannig fram fyrir hendur þingsins, ef nefndir vilja nota aðstöðu sína til þess og koma málunum fyrir á þennan hátt. En saga málsins er ekki öll sögð með þessu. Síðan nefndin skilaði málinu loksins frá sjer, hefir það verið fimm sinnum á dagskrá. Hefir það jafnan verið látið þoka fyrir öðrum málum, og sje jeg því ekki betur en hæstv. forseti hafi þar tekið höndum saman við nefndina um að koma málinu þegjandi fyrir kattarnef. Jeg get þessa aðeins, til þess að hv. þm. sjái, hvernig hægt er að traðka vilja meirihluta þingsins, ef slíkum brögðum er beitt.

Að því er snertir sjálft málið, þá skal jeg geta þess, að hv. þm. V.-Ísf. hefir að mestu svarað því, sem þörf er á til varnar frv. Jeg vil því aðeins drepa lítið eitt nánar á nokkur atriði málsins.

Hv. frsm. meirihl. (ÁF) sagði, að það væri hart að láta íslensku skipstjórana sæta slíkri refsingu á meðan eftirlitið væri hvort sem er ekki betra en nú er. En jeg vil þá segja, að þeim mun verra sem eftirlitið er, því meiri ástæða er til að herða refsingarákvæðin. Verði þetta lögleitt, þá verður aðhaldið fyrir skipstjórana langtum meira, en á því ríður einna mest. Þá vildi hv. þm. (ÁF) færa skipstjórunum það til vorkunnar, að þeim væri það of mikil freisting að sjá útlendingana altaf mata krókinn í landhelginni. Jeg hygg nú, að það sjeu Íslendingarnir, sem oftast ganga þar á undan hinum með þetta fagra fordæmi, og það á þeim stöðvum, sem skaðlegast er, að veitt sje á með botnvörpu, einmitt á bátamiðunum, og þá einkum þar, sem þarf kunnugleik til botnvörpuveiða sökum þess, hvernig botnlagi er háttað. Útlendingarnir koma svo á eftir. Lögbrot þeirra eru að nokkru leyti því að kenna, að innlendu skipstjórarnir ganga á undan með þessu ófagra eftirdæmi.

Eins og tekið er fram í greinargerðinni fyrir þessu frv., og glögglega var sýnt við fyrri umr. málsins, þá bitna sektarákvæðin, eins og nú hagar til, alls ekki á skipstjórum, en eingöngu á útgerðinni. Og þetta gerir skipstjórana djarfari til lögbrota heldur en ef það bitnaði á þeim sjálfum, og það einmitt á þann hátt, sem þeim kemur verst, með því að svifta þá rjettindum. Ennfremur, ef það er ríkjandi mórall meðal útgerðarfjelaganna, að það kasti skugga á skipstjórana, ef þeir brjóta ekki landhelgislögin og trolli í landhelgi, þá er því meiri ástæða til þess að herða að skipstjórunum. (ÁF: Þetta er rangt!) Þetta er rjett haft eftir hv. þm. (ÁF): það eru hans eigin orð. Og hafi skrifararnir náð orðum hans rjett, þá mun sýna sig, að okkur ber saman. — Þar sem skipstjórarnir eru svona liðleg verkfæri í höndum útgerðarinnar, þá er sannarlega rjett, að hegningin bitni nokkuð á þeim líka. Þetta er því mjög rík ástæða til þess að setja einmitt slík ákvæði í lög sem hjer er um að ræða. Það getur vel verið, að það sje rjett hjá hv. frsm. meirihl., 1. þm. G.-K., að sumir íslensku skipstjórarnir sjeu svo leiknir í því að brjóta landhelgina, að erfitt sje að hafa hendur í hári þeirra, og það sjeu viðvaningarnir einir, sem í næst. En þó það sje rjett, þá er það nú svo, að aðhald væri þetta ei að síður fyrir þessa syndaseli, því svo er gremja sjómanna, sem fiskiveiðar stunda á smærri bátum og þrásinnis verða fyrir barðinu á þeim, mikil, að alt kapp mundi, ekki síður eftir en áður, verða lagt á það að hafa hendur í hári þeirra, og þess er jeg viss, að úr mundi draga ófyrirleitni þeirra, og þar gæti komið, að þeir líka yrðu að lægja seglin og legðu niður þann ljóta sið. Og þá koma þessi ákvæði til með að ná til þeirra, engu síður en nýgræðinganna.

Því hefir verið svarað af hv. þm. V.-Ísf., viðvíkjandi hegningarákvæðunum, að til eru ýms ákvæði um spellvirki á landi, sem fullkomlega svara til þeirra, svo þau eru alls ekki einstök. Og þó mun erfitt að finna meiri spellvirki en landhelgisveiðar togaranna, víðast hvar.

Frsm. meirihl. (ÁF) sagði, að þetta mundi ekki draga úr lögbrotunum, heldur fremur auka þau. Ef þessari hugsun er haldið áfram, þá ætti það að vera hollast að afnema landhelgislöggjöfina og hafa enga gæslu. En slíku held jeg, að enginn muni vilja halda fram í alvöru. Það verður að reyna að kreppa sem mest að lögbrjótunum, og takist það ekki með því að láta þá hafa hitann í haldinu, þá er ekki hægt að verja landhelgina. Með illu skal ilt út reka. Togaraskipstjórarnir íslensku hafa sýnt, að þetta máltæki á við þá ekki síður en sumt annað.

Þá er sá skoðanamunur, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann vildi álíta það heppilegra að hafa sektirnar mismunandi, eftir því, hvar brotið væri framið. Jeg held, að það verði heppilegast gagnvart útlendingum að láta sömu ákvæðin gilda alstaðar. Það getur vel verið, að minna tjón verði að veiði í landhelgi á einum stað en öðrum. En jafnan valda slíkar veiðar tjóni. Og vitanlegt er það, að þó togararnir veiði kanske mest í landhelgi við suðurströndina á vetrarvertíðinni, sem oft er vitnað til, þá spilla þeir mikið veiðum í öllum veiðistöðunum hjer fyrir sunnan og við Faxaflóa með því að trufla fiskigöngurnar, og gera þannig einnig mikið tjón fiskiveiðum hjer við flóann.