22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2171)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi leyft mjer að koma hjer fram með brtt. við þetta frv., á þskj. 153. En eftir því sem fram hefir komið við umræðuna, og ráða má af till. í nál. og því, hvernig hv. sjútvn. hefir dregið málið á langinn, en þingtímanum nú langt komið, þá virðast lítil líkindi til þess, að frv. muni komast í gegn að þessu sinni. Með brtt. minni tel jeg síst oflangt gengið í því að hegna lögbrjótunum. En þegar jeg sje nú, að meirihl. nefndarinnar leggur það til, að frv. sje felt, þá býst jeg ekki við því, að brtt. mín muni fá byr, þar sem mörgum hv. þdm. þykir fulllangt gengið með frv. En till. mín gengur hóti lengra, og tek jeg hana því aftur, ef frv. næði þá fremur fram að ganga. Því þó mjer þyki það ganga heldur skamt, þá vil jeg heldur, að það verði samþykt.

Og jeg vona, að till. meirihl. nefndarinnar hafi ekki svo mikil áhrif hjer í hv. deild, að frv. verði felt.

Jeg get fyllilega tekið undir með hv. þm. Borgf. um meðferð þá, sem þetta frv. hefir sætt hjer í deildinni. Ekki þó svo, að jeg rengi orð hæstv. forseta. En gangur málsins sýnir, að það hefir ekki haft nauðsynlega samúð þeirra, sem mestu ráða um það, hvernig og hve greiðlega málin ganga fram.

Jeg vil óska þess, að fram fari nafnakall um þetta mál, svo það sjáist, hverjir helst halda hlífiskildi yfir lögbrotaseggjunum, sem fyr og síðar hafa leikið sjer að því að eyðileggja framtíð fátækra manna við strendur þessa lands.