22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jakob Möller:

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að til þess að vernda landhelgina er aðeins ein leið, sú, að auka landhelgisgæsluna, auka hana svo, að hættan á því, að hvert skip verði tekið, sem brýtur, verði svo mikil, að það borgi sig ekki að hætta til þess. Í raun og veru er nú svo ástatt um landhelgina, að mönnum er heimilt að veiða þar fyrir ákveðið gjald. Það er svona í framkvæmdinni, og eins og komið hefir fram í umr. hjer, þá eru til fjelög í útlöndum, sem vátryggja gegn sektum fyrir landhelgisbrot. Þessi fjelög sjá sjer fært að reikna það út, hvað há iðgjöld þau þurfi að fá, til þess að standast tryggingu togaraflotans. Svo það má segja, að landhelgin sje heimil útlendum togurum gegn ákveðnu gjaldi. Stefna þessa frv. er sú, að gera upp á milli útlendra togara og innlendra; útlendu togararnir eiga eftir sem áður að veiða gegn ákveðnu gjaldi í landhelgi, en hinir ekki.

Jeg skil mjög vel gremju fólksins gegn þessum mönnum, sem oft valda svo óskaplegu tjóni með veiðum sínum, eyða afla og spilla veiðarfærum, og jafnvel ógna lífi manna auk heldur. En jeg tel óviðkunnanlegt, að sú gremja komi þannig fram, að hefna sín á innlendum mönnum. En þetta frv. fer ekki fram á annað. Þó innlendum togurum yrði bægt frá landhelginni, þá segði það í rauninni lítið. Sægur hinna útlendu togara hjeldi áfram eftir sem áður að veiða þar, og breytingin yrði hverfandi. Þetta yrði því í reyndinni ekkert annað en að hefna sín á innlendum mönnum. En brot þeirra eru alveg hverfandi í samanburði við hina. Mig furðar hreint á þeim ummælum, sem hjer hafa heyrst, að íslenskir togarar sjeu hvað verstir með að brjóta landhelgina. Jeg veit ekki, hvernig menn fara að segja slíkt. Jeg þekki ákaflega fá dæmi til þess, að íslenskir togarar hafi verið sektaðir fyrir landhelgisbrot. Og eftir öðru hefi jeg ekki að fara. Jeg veit að vísu, að ýmsar sögur ganga, svipaðar sögunum um rjúpnaátið hjer í Reykjavík. En á slíku er ekkert mark takandi. Það eru kviksögur, sem ekki hafa við neitt að styðjast. Mjer er það óskiljanlegt, að íslensku togararnir yrðu ekki oftar fyrir barðinu á gæsluskipunum, ef þetta væri satt. Því þó hópur útlendu togaranna sje margfalt stærri, þá eru þess þó nokkur dæmi, að sami útlendur skipstjóri hefir sætt sektum oftar en einusinni fyrir landhelgisbrot. En þess eru engin dæmi um íslenskan skipstjóra.

Ef þessar ráðstafanir eiga að draga úr landhelgisbrotum og bera nokkurn árangur, þá er víst, að þær koma mjög illa niður. En sje hin leiðin farin, að auka landhelgisvarnir, er það bæði trygt, að af því leiði fullkomin árangur, og eins hitt, að þær ráðstafanir kæmu jafnt niður á öllum, innlendum og útlendum. Hv. þm. Borgf. talaði um, að þessi rjettindamissir skipstjóra, er frv. fer fram á, væri hliðstæður því, er gilti annarsstaðar um vátryggingu gegn landhelgisbrotum. Þetta er alveg ósambærilegt. Maðurinn missir engin rjettindi að lögum, enda þótt hann megi ekki stjórna skipum, er það fjelag vátryggir, er hann hefir gerst brotlegur við. Hinsvegar getur hann stjórnað skipi, sem vátrygt er hjá öðru fjelagi eða með öllu óvátrygt. Það hefir líka komið fyrir, að útlendur skipstjóri hefir verið sektaður oftar en einusinni hjer við land, og sýnir það, að menn missa ekki rjettindi sín, þótt þeir gerist brotlegir.

Þá er annar stórgalli á þessu frv., ef það verður að lögum, að það myndi beinlínis verða til þess að draga úr landhelgisgæslunni. Vjer þekkjum það af reynslunni, hversu erfitt er að framkvæma svona harðhent lög. Árangurinn verður alveg gagnstæður við það, sem til er ætlast. Þegar lagavöndurinn er reiddur hærra en almenningsálitið telur rjett vera, verður það aðeins til að vekja fyrirlitningu fyrir lögum yfirleitt. Aukin landhelgisgæsla er eina ráðið til að bæta úr þessu, hvað sem hver segir.