22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (2177)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Hákon Kristófersson:

Það má nú segja, að fari að tíðkast hin breiðu spjótin, þegar einn úr stjórninni stendur hjer upp til að mæla lögbrjótum bót.

Það er alls ekki satt, að brot innlendra skipa sje eingöngu fólgið í að nota óleyfileg veiðitæki innan landhelginnar. Afleiðingin af brotum þeirra er sú, að veiðarfæri og fiskimið smábáta eru gereyðilögð. Innlendu togararnir eru verstir í þessu efni, enda kunnugastir. Einkum hefir þetta komið fram fyrir vestan.

Hv. 1. þm. G.-K. fyltist heilagri vandlætingu vegna þess, að jeg hafði kallað þessa menn óþokka. Hvaða nafn vill hann gefa þeim mönnum, er svífast ekki að draga yfir línu, sem fátæklingur er að draga með drengjum sínum og eyðileggur þannig bjargræði hans og aflavonir? Ekki þó nafnið „heiðursmaður,“ vænti jeg? Hv. sami þm. (ÁF) talaði um útúrsnúning hjá hv. þm. Borgf., en hjó þá nærri sjálfum sjer um leið. Jeg var alls ekki að svívirða sjómannastjettina með ummælum mínum, en mjer getur ekki annað en runnið í skap við þá menn, sem að yfirlögðu ráði eyðileggja atvinnuveg fátæklinganna, og hafa ekki samviskubit af! Jeg hefi heyrt, að hv. 1. þm. G.-K. hafi bannað skipstjórum sínum að fiska í landhelgi. Jeg er viss um, að það er ekki ótti við refsiákvæði, sem þessu veldur, heldur sómatilfinning heiðarlegs manns, sem ekki vill láta slíkt ranglæti af sjer leiða.

Það er alls ekki meiningin með frv., að hefna sín á innlendum skipstjórum. Að beina slíkri ásökun til mín eða annrara í þessu máli, er því næsta ómannlegt og ómaklegt. Hitt er satt, að við getum ekki sett lög nema fyrir vort eigið land. Og jeg skal líka játa það, að vafasamt er, hve mikið gagn myndi af þessu leiða. Hjer er hvort sem er vaninn sá, að sjá í gegnum fingur við flesta lögbrjóta landsins, a. m. k. þá stærri.

Því hefir verið haldið fram, að þetta frv. gengi í bága við rjettlætismeðvitund manna. Þessi fullyrðing finst mjer nú ennþá einkennilegri heldur en þó að jeg kallaði þessa lögbrjóta óþokka. Ekki fæ jeg heldur skilið það, að þessi lög geti orðið landinu til skammar — að öðru leyti en því, að vera má, að þeim verði svo illa framfylgt, að til skammar verði, eins á sjer stað um fleiri lög. Það hefir sýnt sig, að lögbrjótar eiga víða hauka í horni — og meira að segja einn í hæstv. stjórn.