22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (2179)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Björn Líndal:

Það hefir nú flest það verið tekið fram í þessum umræðum, sem jeg hafði ætlað mjer að taka til athugunar, og nú mun jeg því láta mjer nægja með að taka fram tvö atriði, sem aðallega ræður afstöðu minni til þessa máls, auk þess, sem aðrir hafa tekið fram. Það er það fyrsta, sem jeg finn athugavert við þessi lagaákvæði, eins og öll önnur lög, sem eru utan við hin eiginlegu hegningarlög, að þau kveða svo á, að ein og sama hegning skuli liggja við ákveðnum lögbrotum, án nokkurs tillits til þess, með hvaða hugarfari þau lögbrot hafi framin verið. Það er t. d. alveg sama hegning lögð við broti, sem framið er af ásetningi og yfirlögðu ráði, og því broti, sem annaðhvort er framið óvart, af gáleysi, eða alveg óafvitandi. Það er með öðrum orðum ekki tekið neitt tillit til þess, með hvaða hugarfari brotin hafi verið framin. En þegar um slíkt er að ræða, verður ávalt að fara varlega í því og mannúðlega að ákveða hegninguna. Það getur vel farið svo, að maður, sem óvart eða af afsakanlegu gáleysi hefir framið lögbrot, verði þyngra hegnt en þeim, sem framið hefir glæpinn af ásettu ráði. Jeg þykist hafa lært það af þeirri vísindagrein, lögfræðinni, sem jeg hefi lagt nokkra stund á, að hegningarákvæði koma aldrei í veg fyrir lögbrot. Reynslan hefir og sýnt það, að hin hörðustu hegningarlög ná sjaldnast tilgangi sínum. Og eftir því sem hegningin er tiltölulega þyngri en lögbrotið er alvarlegt í almenningsálitinu, því lengra er löggjöfin komin út á ranga braut. Og að lokum fer svo, að hegningin verður talin órjettlátari en brotið. Um þessi brot er það að segja, að þau eru mjög mismunandi í eðli sínu. Jeg get tekið undir það með háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), að það getur verið sjerstök ástæða til þess að leggja sjerstakar hegningar við brotum á vissum svæðum við strendur landsins, þar sem bátamið eru og mest er hætta á að veiðarfærum verði spilt, en þar sem engin bátamið eru, aldrei er róið og því engin veiðarfæri úr landi í hættu, þar skilst mjer, að hver togaraskipstjóri geti fiskað í landhelgi með góðri samvisku og án þess að kvíða því, að hann sje með því að vinna landi sínu og þjóð ógagn, þar eð sá fiskur, sem þarna er, yrði ella engum að notum í þann svipinn. Í öðru tilfellinu eru sakirnar þungar á þann, er brotið fremur, en í hinu mjög lítilfjörlegar. Því áliti jeg rjettast, að öll slík hegningarákvæði væru endurskoðuð í lögum og meira tillit tekið til þess, með hvaða hugarfari brotið er framið, eins og venja er til í allri hegningarlöggjöf. Það er og alls eigi sambærilegt að líkja saman brotum, sem framin eru á landi, og brotum frömdum á sjó. Sjórinn er samkvæmt venju og afargömlum alþýðuhugsunarhætti almenningseign, og því þykir t. d. hart, ef heimilaðar eru skaðabætur fyrir veiðar uppi í landsteinum eða landshlutur af þeim afla, sem dreginn er á annars manns land, með fyrirdráttarnót. Minsta kosti er víða litið svo á, að það verði ekki talið verulegt lagabrot, þótt slíkt sje gert endurgjalds- og bótalaust.

Hitt atriðið, sem jeg sjerstaklega hefi að athuga við þetta frv., er það, að ef ætti að fara að beita mjög hörðum hegningarákvæðum gagnvart togaraskipstjórum, yrði auðvitað afleiðingin sú, að farið yrði að „leppa“ skipin. Það er því miður ávalt hægt að fá menn, sem litla virðingu bera fyrir lögunum og eru fúsir á að selja sig, þótt hegning liggi við, sem er jafn ósárt um sitt eigið mannorð og þau lög, sem þeir eru ráðnir til að brjóta. Þessari aðferð yrði auðvitað beitt, ef útgerðarmennirnir ættu það ella á hættu að missa duglega og aflasæla skipstjóra fyrir það, að þeim hefði orðið það að fara inn fyrir landhelgislínuna, eða skipstjórarnir t. d. væri settir í fangelsi, jafnvel þótt þeir óafvitandi hefðu brotið landhelgislögin, þegar löggjafarvaldið fer inn á þessa braut, er það vissulega komið út á glapstigu. En það er engri þjóð til sóma, ef grípa verður til slíkra örþrifaráða vegna óviturlegra hegningarákvæða.