22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Jeg skal vera stuttorður í þetta sinn, en jeg get þó ekki komist hjá að segja fáein orð um það, sem hjer hefir komið fram í umr. síðan áðan.

Það kom skýrt fram í ræðu hv. þm. Ak., að hann vill mikinn mun gera á refsiákvæðum laganna, eftir því, með hvaða hugarfari lögbrotin eru framin. Jeg skal ekkert um þetta segja, hvort framkvæmanlegt er að gera þennan mun. Ef þetta ætti að hafa áhrif á sektirnar og aðrar refsingar fyrir landhelgisbrot, mundu allir þykjast hafa framið lögbrotið í góðum hug. Mundi þetta verða yfirleitt til þess að draga úr hegningunni fyrir þessi brot og lækka allar sektir, og er þá farið að nálgast allmjög skoðanasvið hv. 1. þm. G.-K., sem helst vill algerlega afnema þessi refsiákvæði öll og þar með lögin í heild.

En jeg held samt, að það verði að miða við þessa gömlu setningu: „Af verkunum skuluð þið þekkja þá“, þegar hegningin er ákveðin. Verkið er hið sama, veiði er eyðilögð og veiðarfærum er spilt, með hvaða hugarfari sem menn annars þykjast hafa framið þetta athæfi. Þá tók hv. sami þm. (BL) undir það, að ástæða væri til þess að gera mun á hegningu fyrir brot framin á ákveðnum svæðum, t. d. þar, sem fiskurinn yrði ella engum að gagni, ætti ekki að taka eins hart á landhelgisbrotunum. En jeg hefi margfaldlega tekið það fram áður, að það er hvergi hægt að veiða í landhelgi svo, að ekki hljótist stórtjón af.

Um leppmenskuna er það að segja, að því verður eigi neitað, að þeir munu því miður vera allmargir viða um land, sem fúsir mundu að leigja sig fyrir leppa á skipin, að minsta kosti hefir reynslan á undanförnum árum sýnt, að sú mun raunin á vera, t. d. á Norðurlandi. Þó hygg jeg, að þeir útgerðarmenn, sem ættu um það að velja að taka leppa á skipin, að minsta kosti hefir til að selja sig til lögbrotanna, mundu fyrst taka það til athugunar, að sektirnar og skaðabætur allar lenda ávalt eingöngu á útgerðarmönnunum sjálfum. Auk þess eiga lepparnir það yfir höfði sjer, að missa rjettindi sín, ef sá reglulegi ráðandi skipstjóri hjeldi nú uppteknum hætti með landhelgisveiðar — og þó þau rjettindi sjeu nú kanske ekki mikils virði, þá mundi leppunum það þó ávalt nokkurt athugunarefni.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók það enn fram, að sömu refsiákvæði giltu alstaðar erlendis, jafnt fyrir innlenda menn sem erlenda, en jeg er þó ekki svo viss um, að þetta sje rjett. Sektirnar eru ávalt þær sömu, jafnt fyrir erlenda sem innlenda, en rjettindamissirinn nær eingöngu til innlendra manna, þar eins og hjer mundi verða. Að minsta kosti er þessu svona varið í Englandi, og nú einnig líka í Þýskalandi. Annars ættu lögfræðingarnir að geta skorið úr því, hvort hægt sje að láta rjettindamissinn ná til erlendra skipstjóra líka, eða hvort hægt er að beita við þá fangelsishegningu. Hitt er allvíða, að sektirnar eru miklu hærri en hjer, t. d. í Noregi eru skipin gerð upptæk við annað eða þriðja brot. Þetta er því ekkert sjerstakt hjá okkur, og er því órjett að niðra háttv. þm. Barð. og öðrum fyrir það, að þeir sjeu með þessu að gerast talsmenn erlendra lögbrjóta. Það er alveg tilhæfulaust. (JakM: Þetta er alt hringavitleysa hjá háttv. þm!) Nei, vitleysan og misskilningurinn er allur hjá 3. þm. Reykv., hvort sem það er umhyggjan fyrir hinum reykvísku lögbrjótum, sem blindar honum sýn, eða það er eitthvað annað; það skal jeg láta ósagt.

Þá sagði sami háttv. þm. (JakM), að þetta væri hefnd. En það má nú í rauninni segja svo um öll hegningarákvæði, að þau sjeu einskonar hefnd. En það verður eigi sagt með meira rjetti um þessi refsiákvæði en önnur sama háttar, sem í lögum eru. Þá taldi þessi háttv. þm. sig mundu geta orðið þessu máli fylgjandi, ef svo yrði breytt til, að sjerstakar hegningar lægju við brotum á ákveðnum svæðum, en þó nær þetta fylgi hans eigi svo langt, að hann vilji lofa þessu frv. að ganga til 3. umr., þrátt fyrir það, að hv. samþm. hans (JBald) hafi lýst því yfir, að ef frv. yrði samþ. til 3. umr., mundi hann koma fram með brtt. þessa efnis. Þetta er því hreinn fyrirsláttur hjá háttv. 3. þm. Reykv. og ekkert annað. Hann vill aðeins koma þessu máli fyrir kattarnef; með því er hinum reykvísku lögbrota-botnvörpuskipstjórum best þjent.