22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (2182)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Ágúst Flygenring):

Jeg vil aðeins benda háttv. flm. (PO) á það, að það er óþarft af honum að vera að gorta af því, að við höfum eigi vitað um það, að hægt væri að beita fangelsishegningu við skipstjórana. Við vissum þetta vel, en við vissum og, að þetta eru alt önnur ákvæði almenns efnis, sem til taka, að fangelsishegningu megi beita, ef mikil brögð sjeu að þessum brotum. En í frv. stendur, að þessari hegningu skuli beitt, og er það alt annað. (PO: Þetta er alveg rangt; það felst í öðrum ákvæðum frv., hvernig þessum ákvæðum skuli framfylgt). Nei, það er berum orðum tekið fram í frv., að þetta skuli gert. Þetta er því jafnsatt hjá hv. þm. Borgf. og þegar hann segir, að jeg hvorki vilji hafa eftirlit með landhelginni nje láta beita sektum við lögbrjóta. Þetta er borið fram af háttv. þm. af ofurkappi einu, og gætir þar hvergi vits hjá honum. Jeg vil aðeins ekki, að refsingin lendi í blindni á togaraskipstjórum okkar einum saman. Jeg hefi þegar greitt atkv. með því, að sektirnar eru nú orðnar meir en tvöfaldar, og er það því alveg rangt að bregða mjer um að vilja halda hlífiskildi yfir lögbrjótunum. Okkur ber því í rauninni ekki annað í milli en að jeg vil ekki láta refsa innlendum mönnum í blindni eða umfram erlenda. Það má sækja mál með kappi þó minna sje en þetta, og er hjer alveg skotið yfir markið hjá hv. þm. (PO), er hann bregður mjer um að draga taum lögbrjóta.

Þá spurði hv. þm. Barð., hvað mætti kalla þá menn, sem spiltu veiðarfærum manna og tækju björgina frá bláfátæku fólki? Jeg svara því einu, að jeg þekki enga þá skipstjóra, sem þetta hafa viljandi gert. Eg trúi ekki, að íslensku skipstjórarnir geri það vísvitandi.