25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2190)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer finst till. hv. 2. þm. Reykv. ganga í rjetta átt, því að í fjörðum og flóum er ágangur botnvörpunganna tilfinnanlegastur og tjónið, sem þeir gera, mest, þar sem þeir tíðum eyðileggja þar með öllu veiðarfæri bátaútgerðarmanna og skrapa svo botninn, að oft er fisklaust eftir um langan tíma. Enda er fiskmergðin þar minni heldur en úti fyrir ströndunum. Gæti jeg því fallist á þessa till. að efni til.

Annars tel jeg, að rjettara sje að athuga, hvort ekki væri sanngjarnt, að þessi ákvæði næðu yfir fleiri svæði en suðvestur- og vesturströndina. Gæti jeg hugsað, að svipað stæði á sumstaðar á Austfjörðum. Þetta og fleira er ekki athugað sem skyldi, ef fara ætti þá leið, sem hv. 2. þm. Reykv. bendir á með brtt. sinni.

Jeg get ekki fallist á það, að rjettur skipstjóra sje af þeim tekinn, hve litlar sakir sem eru fyrir hendi. Sjerstaklega finst mjer það ósanngjarnt og vanhugsað, að þeir fái ekki, þó að þeir verði sekir um landhelgisbrot, að vera skipstjórar á öðrum skipum en togurum, svo sem lóðaveiða-, haldfæra- eða milliferðaskipum. Hugsa jeg, að allskonar undanbrögð yrðu höfð í frammi, til að afsanna landhelgisbrot og hylma yfir þau, ef þetta frv. verður samþ., eins og hv. þm. Ak. benti á við 2. umr.

Jeg tel ekki landhelgiseftirlitinu betur borgið, þó frv. verði samþ., nema síður sje. Auðvitað er sjálfsagt að auka sem mest og best landhelgisvarnir, en við megum ekki setja lög um þau efni, fremur en önnur, sem líklegt er, að ekki komi að haldi, en verði aftur á móti einstaklingum til óheilla og atvinnuspjalla. Það hefir ærið oft komið fyrir, að togarar hafa verið innan landhelginnar, án þess að hafa minstu hugmynd um það. Við suðurströndina mun oft vera ærið erfitt að skera úr slíku, þar sem dimmviðri, þoka og sandfok úr landi byrgja oft og tíðum sýn. Yfirmenn á varðskipinu hafa þráfaldlega ekki getað ákveðið, hvort togarar væru að veiðum í landhelgi eða utan hennar, hjer austur við sandana, einkum í Meðallandsbugtinni. En það er annað, sem athuga þarf, og það er, hvort ekki væri ástæða til að friða stærstu flóa og firði fyrir togaraveiðum innlendra manna.

Jeg legg því til, að frv. sje vísað til stjórnarinnar, til frekari athugunar.