25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (2198)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Ágúst Flygenring):

Út af till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) get jeg fallist á það, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) sögðu, að það er víðar en á þessu svæði, sem verður að taka tillit til hrygningarstaða; þeir eru vitanlega víðar en fyrir Vesturlandi. Það, sem háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði um eyðileggingu á botngróðri og ungviði, geta allir tekið undir. En jeg vil benda á, að mesta mergðin af ungviðinu, sem botnvörpungarnir eyðileggja, og mesti botngróðurinn er einmitt víða fyrir utan landhelgi. Jeg get bent á staði, þar sem sjerstaklega leiðinlegt er að geta ekki komið í veg fyrir slíkar skemdir. Það er ekki í Faxaflóa eingöngu; þó að það sje mikið þar, þá er það þó ekki mest. En fyrir Austurlandi eru mörg slík svæði fyrir utan landhelgi.

Jeg er mótfallinn þessari brtt., eins og frv. í heild, og tel hana ekki til nokkurra bóta. Jeg hefi fært rök að því, að þetta frv. er ekki til annars en að skapa misrjetti. Jeg hefi sýnt fram á það, hve mikil freisting það er fyrir íslenska skipstjóra að fara inn í landhelgina, þegar þeir sjá stóra hópa af útlendum skipum vera þar að veiðum, þegar þeir vita, að húsbændur þeirra þakka þeim, þegar þeir koma með mikinn feng, en vanþakka, þegar aflinn er lítill, þó að jeg segi ekki með þessu, að altaf sje minni afli fyrir utan landhelgi. Hv. þm. Borgf. (PO) má ekki skilja þetta svo, að útgerðarmenn telji það kost á skipstjórum sínum, ef þeir veiða í landhelgi. En það liggur í hlutarins eðli, að þeir menn, sem fiska altaf fyrir utan landhelgi og afla ef til vill minna af þeim sökum, eiga það frekar í vafa, hvort þeir fái að halda góðum skipum. Það er ekki alment, að íslenskir skipstjórar brjóti landhelgislögin, en það getur þó komið fyrir, þegar þeir eru að veiða í ís. Sá fiskur er að einhverju leyti tekinn í landhelgi af ýmsum togurum. En sem betur fer er það oftast gert á þann hátt, að bátaveiði er í engu spilt, en engu síður er það ólöglegt. Þetta á við um flesta þá, er brjóta landhelgislögin. En sumir íslenskir skipstjórar brjóta þau aldrei.

Þegar seilst er eftir betri og dýrari afla með því að veiða í landhelgi, er það eingöngu í þágu útgerðarinnar, og er það alveg rjett, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði í þessu sambandi, að það eru því útgerðarmenn, en ekki skipstjórarnir, sem eiga að verða fyrir hegningunni — sektunum. En með þessu frv. kemur refsingin niður í blindni, eins og jeg hefi sýnt fram á áður.

Jeg tel þetta mál útrætt fyrir löngu. Jeg vil ekki, að það gangi fram, af því að í því er fólginn of mikill hefndarhugur til botnvörpungaútgerðarinnar hjer á landi, sem bitnar á skipstjórunum. Mjer finst, að togaraútgerðin hljóti að eiga heimtingu á að mæta allri sanngirni. Nýlega hafa sektirnar verið hækkaðar um meira en helming, og ætti það að vera nóg í bili. En væri um tvent að velja, hækka sektirnar enn að miklum mun, eða hegna skipstjórunum á þann hátt, sem hjer ræðir um, þá er vitanlega rjettara að taka fyrri kostinn, en ekki refsa skipstjórunum, nema auðið sje að refsa þeim rjettlátlega. En því verður ekki komið svo fyrir að hegna þeim þyngst, sem mest hafa unnið til refsingar, en það eru auðvitað þeir skipstjórarnir, sem spilla veiðarfærum manna.