25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Kjartansson:

Jeg hygg, að brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) fari ekki í rjetta átt, en á þá leið hefir ekki verið minst, sem jeg tel æskilegasta. Hún er sú, og jeg ætla, að það mætti takast nú, að fá Faxaflóa öllum komið inn fyrir landhelgislínuna. Jeg hefi sjeð, að það er á dagskrá hjá Bretum að reyna að fá Morayfjörð á Skotlandi inn fyrir landhelgislínu. Mjer vitanlega höfum vjer ekki samning um landhelgi vora við aðrar þjóðir en Englendinga. Ætti því að vera nægilegt að fá samkomulag við þá um að friða Faxaflóa, til þess að það gilti gagnvart öllum. Það væri því ekki úr vegi að vísa þessu máli til stjórnarinnar, ekki til þess að koma því fyrir í drekkingarhylnum, sem hv. þm. Borgf. talaði um, heldur til þess, að þessi leið verði rannsökuð. Ef Bretum hepnast að friða þennan flóa, sem breskum togurum er nú bannað að veiða í, þá ætti að veitast auðvelt að koma öllum Faxaflóa inn í landhelgi, eða þá einhverjum öðrum flóa, sem heppilegra þætti að friða. Hygg jeg þó, að rjettast væri að friða einmitt Faxaflóa, bæði vegna stærðar hans og hinna mörgu ágætu fiskimiða. Væri þá einnig auðveldara um eftirlit með landhelginni á þeim slóðum.

Þá er önnur hlið, sem mjer virðist ekki hafa verið athuguð nógu gaumgæfilega. Síðastliðið sumar var reynt að framkvæma strandgæsluna af alefli og beita því, sem vjer höfðum tök á, en þá tel jeg óheppilegt að skilja þetta á þann veg, að landhelgisgæsla Dana ætti að rjena að sama skapi sem hún er aukin af vorri hálfu. Þó að norðurströnd landsins sje varin um síldveiðitímann, má ekki skilja það svo, að danska varðskipið eigi að hverfa frá því svæði. (PO: Þetta kemur ekki þessu máli við). Það kemur einmitt við þetta mál, því aðalatriðið er þó altaf það, hvernig landhelgin er varin. Og stjórnin gæti gert ákaflega mikið til gagns, ef hún vildi vel gera, einkum í því efni að ná einhverjum af bestu flóunum inn fyrir landhelgislínuna, ef Bretum tekst að fá sínu máli framgengt.