25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Hákon Kristófersson:

Það var bara út af ummælum hv. þm. V.-Sk. (JK) sem jeg vildi segja fáein orð. Háttv. þm. (JK) virtist ekki muna eftir því, að til væru aðrir veiðisælir firðir eða flóar en Faxaflói. Í því sambandi vil jeg minna á það, að til er þó annar stór og fiskisæll flói, sem kallaður er Breiðifjörður. Það var því mjög einkennilegt, að háttv. þm. V.-Sk. skyldi aðeins leggja áherslu á það, að ef um útfærslu landhelginnar gæti verið að tala, þá bæri sjerstaklega að muna eftir Faxaflóa. Jeg veit og ekki betur en að samþ. hafi verið áskorun til stjórnarinnar fyrir löngu síðan um það, að hún reyndi að fá landhelgislínuna færða út þannig, að hún væri fyrir utan alla firði og flóa, er liggja að landinu. En það mun vera hægra sagt en gert að koma slíku í framkvæmd, því við ramman er reip að draga, þar sem um það verður að eiga við stórar og voldugar þjóðir, sem hafa mikinn hag af fiskiveiðunum hjer við land.

Að því er það snertir, að máli þessu skuli vísað til stjórnarinnar, þá tel jeg það hafa mjög litla þýðingu, þar sem stjórninni hefir verið áður falið að gera það, sem í hennar valdi stæði, með útfærslu landhelginnar.

Því hefir verið haldið fram, að þessi refsing, sem hjer er um að ræða, sje ekki rjettlát, og að betra sje að herða heldur sektarákvæðin.

Jeg verð nú að segja það, að jeg þekki þess mjög fá dæmi, að til þess hafi komið, að innlendir togarar hafi orðið fyrir sektum fyrir brot á landhelgislögunum, og mun það þó ekki vera þess vegna, að þeir hafi aldrei í landhelgina komið. Jeg hefi t. d. heyrt, að nýlega var íslenskur togari að veiða í landhelgi austur með söndum. Hann varð alt í einu var við það, að varðskipið var á ferðinni. Hvað mundi hann þá gera? Sleppir frá sjer vírum og trolli og duflaði yfir með planka. Þegar því varðskipið kom, var hann í mestu rólegheitum fyrir framan landhelgislínuna og hjelt sjer þar við, uns varðskipið var horfið. Þá tók hann aftur öll sín veiðarfæri með besta árangri. (PO: Hann hefir verið að villast, auminginn!) Nei, þeim mun ekki vera svo mjög villigjarnt, íslensku togurunum. Þeir eru furðu ratvísir, þegar þeir eru að leita uppi bestu landhelgismiðin. Enda sjest best, hvers trausts þeir njóta hjá erlendum togurum í þessu efni, er heill floti þeirra fylgir þeim eftir og hefir þá að leiðarljósum. Það er og ekki villigjörnum hent að sigla ljóslaust um á niðdimmri skammdegisnótt, eins og þeir hafa stundum gert inn á þröngum fjörðum, eins og víða á sjer stað á Vestfjörðum.