25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2202)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Jeg vil út af orðum hv. 3. þm. Reykv. (JakM) benda á það, að á stríðsárunum var mjög fátt um bæði útlenda og innlenda togara á fiskimiðunum hjer, og höfðu botnvörpuveiðarnar því sama sem engin áhrif á fiskiveiðarnar yfirleitt, eins og raun bar vitni um, þar sem nálega hver fjörður fyltist af fiski á þeim árum. Þá höfðu þeir fáu íslensku botnvörpuskipstjórar nálega enga útlendinga til að elta sig inn fyrir landhelgislínuna. En það er nokkuð öðru máli að gegna nú. Þeir af íslensku togurunum, sem langhættulegastir eru með þetta, eru þeir, sem hafa haft loftskeytatækin og standa í sambandi við útgerðarmennina og fá bendingar frá þeim. Útlendingarnir vita vel um þetta og hafa það að leiðarvísi. Það eru því þessir íslensku togarar, sem mestu meininu valda. Það er líka auðsætt, að trollaraskipstjórarnir vita, hvað hjer er í húfi, því þeir ganga nú eins og grenjandi ljón um bæinn og meðal hv. þm. að reyna að hafa áhrif á það að koma þessu frv. fyrir kattarnef. Nú gefst á að líta, hvað áhrif þeirra eru sterk.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) vildi vísa þessu máli til stjórnarinnar, til þess að hún grenslist eftir því, meðal annars, hvort ekki sje hægt að fá landhelgislínuna færða út. Það sýnir ekki mikinn áhuga þessa hv. þm. á þessu máli, að hann skuli ekki einu sinni vita um, að fram er komin till. þess efnis, og er því með öllu óþarft að vísa þessu máli til stjórnarinnar í því skyni.