03.04.1924
Efri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

80. mál, selaskot á Breiðafirði

Frsm. (Eggert Pálsson):

Frv. þetta fer fram á breytingu eða útvíkkun á 1. nr. 32, 16 des. 1885, um selaskot á Breiðafirði. Með lögum þessum er bannað skot á sel á stóru svæði af norður- og vesturhluta Breiðafjarðar. Hafa lögin nú staðið í 39 ár, og hefir enn eigi orðið vart við það, að menn vildu breyta þeim eða afnema. Bendir það á það, að lögin hafi komið að góðu haldi. Er því eigi nema eðlilegt, að aðrir hlutar Breiðafjarðar, sjerstaklega suðurhlutinn, óski eftir að fá útvíkkun á lögum þessum, með reynslu hinna fyrir augum. Hv. þm. Snæf. hefir borið fram þetta frv. um slíka útvíkkun á lögunum. Eins og hann gat um í flutningsræðu sinni, þá hafa 14 eigendur sellátra og varplanda við suðurhluta fjarðarins sent þinginu óskir um að fá þessa ívilnun. Er það eigi nema eðlilegt, þar sem reynslan hefir sýnt, að friðunarlögin hafa gert mjög mikið gagn á svæði því, sem þau hafa náð yfir. Virðist því í fljótu bili sjálfsagt að verða við óskum þeirra. Það er nú svo, að selur er talinn hættulegur þar, sem laxveiði er. En eins og tekið er fram í grg. frv. og öllum hv. þdm. mun kunnugt, þá er eigi mikið um laxveiði við Breiðafjörð, og þó að hægt væri að eyða selnum, þá mundi laxveiðin þar eigi aukast fyrir það. Það lítur því svo út í fyrstu, að eigi sje nema sjálfsagt að banna selaskot á svæði því, sem um er að ræða. En við það er þó það að athuga, að samtímis því, að hlutaðeigendur senda ósk sína um útvíkkun friðunarinnar, þá komu mótmæli gegn því, undirrituð af 37 mönnum úr Snæfellsnessýslu. Eiga þeir flestir heima í Stykkishólmi. Þegar svo er ástatt, geta menn hugsað, að lög sem þessi leiddu til ófriðar manna meðal innan hjeraðsins. Sýnist því rjett að gefa hjeraðinu sjálfu vald til þess að ákveða, hvort lögleiða skuli þessa friðun eða eigi. Nefndin hefir því komið sjer saman um að leggja fram rökstudda dagskrá, á þskj. 265, er gengur í þá átt, að leitað verði umsagnar hlutaðeigandi sýslunefnda um málið, svo að ekki sje hægt að segja eða gera veður út af því, að á bak við þær sje farið í þessu efni. Sje þessi leið valin, er jeg eigi í neinum vafa um, að sýslunefndirnar muni samþ., að friðunin skuli leidd í lög. Býst jeg svo við, að jeg þurfi eigi að fara fleiri orðum um dagskrána. Hygg jeg, að hv. þdm. sjái, að þessi leið sje betri heldur en að hrapað sje að því að lögleiða þetta nú, enda þótt enginn vafi geti leikið á því, að rjett sje að veita friðunina að sunnanverðu eins og hún hefir verið veitt að norðanverðu, og það því fremur sem reynslan hefir sýnt, að hún hefir komið að miklu gagni þar, sem hún hefir náð yfir.

Skal jeg svo leyfa mjer að lesa upp þessa rökstuddu dagskrá:

„Með því að hjeraðsbúa, sem hlut eiga að máli, greinir allmikið á um gagnsemi þessa frv., leggur deildin til, að ríkisstjórnin leiti álits sýslunefndanna í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Dalasýslu um málið og leggi það álit fyrir næsta þing, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“