16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1925

Björn Kristjánsson:

Það eru aðeins fáein orð, sem jeg vildi segja, vegna Flensborgarskólans. Háttv. fjvn. Nd. er treg á að veita fje til þessa skóla, eins og að undanförnu. Verð jeg því að gera grein fyrir, hvernig skóli þessi er til kominn og hvernig Alþingi hefir kostað hann að undanförnu, því að það virðist standa óljóst fyrir. Skal jeg þá fyrst benda á, að sjera Þórarinn Böðvarsson gaf landinu jörðina Hvaleyri og Flensborgareignina, til þess að þar skyldi stofnaður alþýðuskóli. Vil jeg leyfa mjer að lesa kafla upp úr gjafabrjefinu, svo öllum megi vera ljóst, hvernig stendur á, að skólinn er landsins eign. Brjefið er frá 1. júní 1882. Fyrsti liður þess hljóðar svo:

„Eignum þeim, sem nefndar eru í áminstu brjefi, að viðbættu húsi því, sem fylgdi jörðinni Flensborg, og fleiru, og sem nú eru allar virtar á 13400 kr. samkvæmt virðingargerð, sem legst hjer með, skal frá yfirstandandi fardögum verja til að stofna alþýðu- og gagnfræðaskóla, þar sem einnig börn í Garðahreppi geti feng- ið kenslu, ef Garðahreppur leggur þar til hæfilegan árlegan styrk.“

2. liðurinn hljóðar svo:

„Fái skólinn ekki þann styrk af landssjóði, að hann geti þegar að notum komið, skal fje hans ávaxtast þangað til, að svo getur orðið.“

3. liður hljóðar svo:

„Fje skólans og skólinn sjálfur skal vera undir stjórn landshöfðingjans yfir Íslandi, semur hann stofnskrá og reglugerð fyrir skólann, skipar kennara skólans, og, ef honum svo sýnist, nefnd manna til að stjórna fje hans.“

Menn sjá af þessu, að gjöfin og skólinn eru lögð undir stjórn landsins, og ekki nóg með það, heldur hefir Alþingi lagt fram fje til skólans árið eftir, og með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp athugasemdina við fjárveitinguna. Athugasemdin hljóðar svo:

„Styrkur eftir staflið a., b. og c. veitist með því skilyrði, að skólar þessir njóti einnig annarar tillögu, er eigi sje minni en helmingur á móts við styrkinn úr landssjóði. (Þó nær þetta skilyrði eigi til skólans í Flensborg).“

Undir a.-lið eru taldir kvennaskólar, b.-lið barnaskólar og c.-lið alþýðuskólar. Sýnir þetta ljóslega, að þingið hefir skoðað skólann strax sem landsskóla, þar sem það gerir honum ekki að skyldu að leggja fram fje á móti fjárveitingunni, eins og öðrum skólum. Samhljóða þessu er athugasemdin við fjárveitinguna 1905. Annars er styrkurinn altaf veittur athugasemdarlaust frá 1883.

Þegar landshöfðingi semur reglugerð fyrir skólann, er tekið fram í 2. gr., „að skólinn sje undir yfirráðum landshöfðingja.“

Jeg tek þetta fram sökum þess, að jeg fæ það svo oft framan í mig, að þetta sje ekki landsskóli. En það er ekki aðalatriðið, hvort skólinn er landsskóli eða ekki. Aðalatriðið er, hvort menn meta alþýðumentunina í landinu rjettilega og þann drjúga skerf, sem þessi skóli leggur til hennar, og ef menn gera það, þá hljóta þeir að vera með þessum skóla. Skólanum hefir altaf verið veitt alt fje úr landssjóði, sem hann hefir notað, en altaf af skornum skamti. Og hefði ekki verið gætt allrar sparsemi í öllu skólahaldinu, þá hefði skólinn alls ekki komist af með það fje, sem hann hefir haft yfir að ráða. 1920–21 fjekk hann 18 þús. kr., 1922 22 þús., 1923 15 þús., 1924 15 þús. Og það er vitanlegt, að skólinn getur ekki komist af með minna fje næsta ár en hann hafði síðastliðið ár, því að það eru mikil líkindi til þess, að dýrtíð vaxi. Skólinn verður og að viðhalda uppbúnum 27 rúmum fyrir utanbæjarnemendur, og minkar ekki sá kostnaður við hinn háa toll, sem nú er lagður á vefnaðarvörur. Og yfirleitt er ekki unt að búast við því, að neitt verði ódýrara nú en í fyrra.

Hv. fjvn. Nd. vildi spara á öllum sviðum, og hún vildi spara fje til Flensborgarskólans með því að gera sýslusjóði Gullbringu- og Kjósarsýslu skylt að leggja fram 3000 kr. á móti fjárveitingu landssjóðs. Hefði það orðið ofan á, þá hefði Gullbringu- og Kjósarsýsla orðið að leggja fram 3000 kr. fyrir að hafa aðeins fimm menn í skólanum; fleiri voru þeir ekki skólaárið 1920–1921. Það er öllum augljóst, að slíkt væri mjög ósanngjarnt. En það er auðvitað sökum ókunnugleika, að svona tillaga kemur fram. Jeg skal játa það, að það er eðlilegt, að svona fjarstæður komi fram, þegar allar upplýsingar vantar. En jeg vona, að hv. deild taki þetta til leiðrjettingar, þegar hún fær nauðsynlegar upplýsingar í málinu. Skólinn hefir ekki haft, frá því hann var stofnaður, árið 1883, fram til þessa tíma, aðrar tekjur en það, sem landssjóður hefir lagt honum, og 109 kr. á ári, afgjald af Hvaleyri. Og það fje, sem skólinn hefir haft yfir að ráða, hefir verið svo lítið, að uppeldissonur Þórarins sáluga Böðvarssonar hefir hvað eftir annað orðið að leggja fram fje til skólans. Eitt árið varð hann t. d. að leggja fram 5000 kr. Þær 5000 kr. veitti þingið á endanum í fjáraukalögum, svo hann fengi þær endurgreiddar.

Nemendafjöldi við Flensborgarskólann hefir venjulega verið álíka mikill og við gagnfræðaskólann á Akureyri. Þó hefir hann líklega venjulega verið ívið minni í Flensborg.

Jeg skýrði frá því á þingi árið 1922, að þá hefði nemendafjöldi við gagnfræðaskólann á Akureyri verið 91, en í Flensborg 86. Það ár kostaði hver nemandi á Akureyri landssjóð 520 kr., en 174 kr. í Flensborg. Þetta ætti að nægja til þess að sýna, að „prívat“-skólar eru jafnan ódýrastir, og því ætti ríkið að sjá sjer hag í því að styrkja slíka skóla og halda þeim við. Og ef ríkið styrkti slíka skóla sæmilega, þá væri það hvöt fyrir menn eins og Þórarin sáluga Böðvarsson, sem áhuga hafa fyrir alþýðumentun í landinu, að gefa til slíkra skóla. En Alþingi hefir ekki altaf tekið þannig á móti slíkum gjöfum, að það væri til hvatningar öðrum, sem máske hefðu hug á að gefa þannig.

Jeg sýndi hv. fjvn. fram á, hvernig fjárlagafrv. var, þegar það kom til þingsins, og hvernig það er nú. Sex skólar hafa fengið tillag sitt hækkað við meðferð fjárlaganna í þinginu, en Flensborgarskólinn einn hefir verið lækkaður. Og mjer finst það illa viðeigandi, að unglingaskólar, sem ekki eru landsskólar, eins og t. d. Núpsskólinn og Hvítárbakkaskólinn, skuli eiga að fá jafnan styrk og áður af þeim 30 þús. kr., sem veittar eru til alþýðufræðslu, en Flensborgarskólinn skuli vera lækkaður ofan í 12 þús. kr. Þó hefir hv. fjvn. Ed. bætt ofurlítið úr með því að leggja til, að það skilyrði falli burtu, að 3000 kr. komi annarsstaðar frá, og sömuleiðis leggur hún til, að skólagjöld renni í skólasjóðinn, en skólagjöldin námu síðastliðið ár 1200 kr. Ef sama skólagjald yrði næsta ár og nú er, þá mundu tekjur skólans verða rúm 13 þús. kr., ef hann fengi aðeins 12 þús. kr. frá landssjóði, en það nægir honum alls ekki. Og skólinn hefði aldrei komist af með það fje, sem hann hefir fengið, ef ekki hefði verið gætt hins ýtrasta sparnaðar á öllum sviðum og kennarar skólans lifað við lægri laun en þekst hefir við aðra samskonar skóla. En þó hefir kensla við þennan skóla altaf verið ágæt, þannig að hún mun lítið eða ekkert standa að baki kenslu í gagnfræðadeild mentaskólans. T. d. skal jeg geta þess, að á árunum 1913–1922 gengu um 20 nemendur úr Flensborg upp í 4. bekk mentaskólans, allir með góðum vitnisburði.

Þessi skóli hefir nú starfað í 41 ár. Allan þann tíma hefir forstöðumaður hans, sem nú er, verið kennari við skólann, og síðustu 16 árin hefir hann verið skólastjóri. Og þessi skólastjóri, Ögmundur Sigurðsson, hefir hlotið alment lof fyrir áhuga þann og dugnað, sem hann hefir sýnt í starfi sínu, og þá frábæru lægni, sem hann hefir sýnt í því að vekja áhuga hjá nemendum sínum og láta kensluna koma þeim að sem bestum notum. Nú er hann orðinn 65 ára, og það verður að teljast hart að gengið að mæða hann með svona örðugleikum eftir vel unnið starf, og það því fremur, sem ekkert orð fjell í þá átt í fyrra, að þessar 15 þús. kr. væru of mikið handa skólanum. Jeg skal líka geta þess, að heimavistin við þennan skóla er mjög ódýr. Nemendur fá þar venjulega fæði, húsnæði, ljós og hita fyrir um 60 kr. á mánuði, og það er auðvitað mjög mikils virði fyrir utanbæjarmenn að fá svo ódýra vist við skólann, og hagur landinu í heild sinni, að fátækir menn, sem ekki geta sótt dýru skólana, fái tækifæri til að fá ódýra mentun í Flensborg. Jeg vona því, að hv. deild sýni sanngirni og fallist á að veita skólanum styrk þann, sem jeg fer fram á.

Mjer finst það vera óþarfi að rifja upp það, sem jeg skýrði frá á þingi 1922 um nemendafjölda skólans og aðsókn til hans úr ýmsum hjeruðum landsins. Jeg skal þó geta þess, að frá 1913–1921 voru alls í skólanum á annað þúsund nemendur. Þar af voru 396 úr Hafnarfirði, en 698 annarsstaðar af landinu. Kenslan nær því til allra sýslna, og má því með sanni segja, að skólinn sje landsskóli. Jeg álít því, að því fje, sem varið er til Flensborgarskólans, sje vel varið, og jeg vona, að hv. deild sje mjer sammála um það og sýni það í verkinu með því að samþykkja, að skólinn fái þessi 14 þús., sem jeg fer fram á.

Þá á jeg aðra brtt. við 14. gr., þess efnis, að lýðskólanum í Bergstaðastræti verði veittur 1000 kr. styrkur eins og áður. Jeg skal taka það fram, að jeg skil ekki, hvernig stendur á því, að kominn er nýr skóli í sæti hans. Mjer finst það annars undarlegt að vilja spara þessa litlu fjárveitingu til þessa skóla, og jeg held, að það hljóti að koma af því, að háttv. þm. þekki ekki, hve góður þessi skóli er. Jeg vil, að þessi skóli fái framvegis þann styrk, sem hann hefir fengið, því jeg veit, að margir geta haft gagn af að sækja þennan skóla, og jeg veit, að honum er stjórnað með sömu alúð og skyldurækni og Flensborgarskólanum. Skólinn var stofnaður árið 1909 og hefir altaf starfað síðan, þrátt fyrir fátækt og fleiri örðugleika, sem hann hefir haft við að stríða. Aðsókn að skólanum hefir altaf verið mikil. Nemendur hafa verið um 60 á ári í þau 15 ár, sem hann hefir starfað, eða um 900 í alt. Þar af hafa verið um 350 úr sveit. Námsgreinar þær, sem kendar hafa verið í skólanum, eru íslenska, enska, danska, tölvísi og fimleikar. Skóli þessi hefir því verið nokkurskonar milliskóli milli barnaskóla og gagnfræðaskóla. Skólinn hefir altaf gert sjer far um að hafa góða kennara, og því hefir mikill árangur orðið að kenslunni. Mjer finst það líta einkennilega út, ef þingið hættir að styrkja þennan skóla, sem er þektur að öllu góðu, en veitir styrk alveg óþektum skóla. Mjer finst þó altaf vera rjettara að halda sjer að því, sem þekt er.

Jeg hefi svo ekki meira að segja um mínar brtt., en jeg vil víkja nokkrum orðum að einstökum öðrum brtt., þó það sje yfirleitt ekki vani minn að skifta mjer af öðru en því, sem kemur, mjer eitthvað sjerstaklega við. Jeg skal þá taka það fram, að jeg er á sama máli og hv. 1. landsk. þm. (SE) viðvíkjandi Árna Theódór. Jeg lít svo á, að þingið hafi gert samning við þann mann, og þeim samningi sje ekki hægt að rifta.

Jeg er einnig á sama máli og hv. 1. landsk. þm. og fleiri um styrk til hjónanna í Hítardal. Mjer finst það mjög vel viðeigandi að veita þeim þessar 1000 kr., sem hv. fjvn. leggur til að þau fái, því starf það, sem frúin frá Staðarhrauni hefir unnið fyrir þessi fátæku hjón, með umhyggjusemi sinni fyrir þeim minnimáttar og ástúð, er meira virði en þessar 1000 kr.

Hvað styrknum til dr. Helga Pjeturss viðvíkur, skal jeg taka það fram, að jeg mun greiða atkvæði með brtt. um, að hann fái 4000 kr. með verðstuðulsuppbót, og jeg vona, að aðrir hv. deildarmenn geri það sama. Og mjer hefði verið sönn ánægja í því að bera fram slíka brtt. í sömu átt, eða vera með, en þess þurfti ekki, því aðrir urðu til þess. Jeg ætla mjer svo ekki að segja meira nú. Býst við máske að þurfa að gera einhverjar aths. seinna.