11.04.1924
Efri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

89. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Jónas Jónsson):

Jeg get verið stuttorður um dagskrá okkar nefndarmanna. Það kom í ljós undir umr. í nefndinni, að sumir nefndarmanna álitu, að til mála gæti komið að samþykkja nú þegar þessa breytingu á sveitarstjórnarlögunum. Aðrir voru aftur á móti þeirrar skoðunar, að fleiri og víðtækari breytingar þyrfti að gera á lögum þessum, og varð niðurstaðan sú, að nefndin varð sammála um að leggja það til við hv. deild, að hún samþykti rökstudda dagskrá þess efnis að skora á stjórnina að undirbúa málið í heild fyrir næsta þing.