11.04.1924
Efri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

89. mál, sveitarstjórnarlög

Ingvar Pálmason:

Jeg get varla sagt, að jeg sje mjög þakklátur hv. nefnd fyrir meðferð hennar á þessu frv., þó að jeg hinsvegar sje henni sammála um það, að margt sje fleira í sveitarstjórnarlögunum, sem full þörf væri á að breyta. En jeg lít svo á, að þessi breyting sje einna nauðsynlegust, og að vel hefði mátt samþykkja frv. með einhverjum breytingum frá hv. nefnd — það hefði jeg getað fallist á — án þess, að þurft hefði að valda nokkrum ruglingi í lögunum. En úr því, sem komið er, virðist ekkert við þessu að segja. Jeg get að vísu felt mig við, að málið verði afgreitt á þann hátt, sem hv. nefnd leggur til — í þetta sinn — og í þeirri von, að nú dragist ekki lengi, að lögin í heild verði endurskoðuð og gerðar á þeim nauðsynlegar breytingar, bæði sú, sem þetta frv. fer fram á, og aðrar, sem vitanlegt er að kalla að.

Mun jeg því ekki gera ágreining við hv. nefnd, þó að mjer hafi sýnst, að frv. hefði mátt ná fram að ganga.