16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1925

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 394, ásamt 2 hv. deildarmönnum, hv. 1. þm. Rang. (EP) og hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), um styrk til Bandalags kvenna. Fjelag þetta, Bandalag kvenna, er stofnað árið 1917, og þó það sje ekki eldra, á það sjer þó allmikla sögu; ef jeg færi að rekja hana nákvæmlega, er jeg hrædd um, að jeg mundi þreyta hv. deild um of. Jeg ætla því að láta mjer nægja að drepa á helstu atriðin. Í Bandalagið gengu þegar átta kvenfjelög, og fjelagið gekk í alheimsbandalag kvenna, sem í eru kvenfjelög í 40 löndum heimsins. Stjórn og þing hefir þegar sýnt Bandalagi kvenna mikla velvild með því að veita því góða lóð, í því skyni, að bygt verði þar samkomuhús fyrir konur, er jafnframt verði heimili fyrir aðkomustúlkur. Þetta mál heyrir auðvitað framtíðinni til, að því er fjársöfnun og aðrar framkvæmdir snertir. Af öðrum málum, sem fjelagið hefir beitt sjer fyrir, skal jeg nefna, að það hefir ætíð síðan árið 1921 tekið einn sunnudag á ári til þess að safna fje handa börnum. Því fje er ekki ráðstafað ennþá, en stjórn fjelagsins hefir hugsað sjer að láta bágstödd börn og mæður þeirra njóta þess.

Veturinn 1917–1918 starfaði fjelagið mikið að því að útbýta gjöfum, fötum, eldivið og peningum handa bágstöddum heimilum, sem komu að góðum notum, því sá vetur var harður og víða þröngt í búi. Ennfremur hefir Bandalagið safnað nokkurri fjárupphæð til styrktar heilsuhælisfjelagi Norðurlands (1700 kr). En fjelagið hefir ekki einungis starfað innanlands, heldur hefir það og hjálpað þurfandi konum erlendis. T. d. gaf það 700 kr. til þess að styrkja alheimsbandalag kvenna til heimsendingar fanga eftir ófriðinn. Einnig hefir Bandalagið lagt fram fje til hjálpar austurrískum börnum og gamalmennum, og yfirleitt stutt mannúðarstarfsemi víðsvegar um heim.

Bandalagið sendi einnig fje til Rússlands til hjálpar bágstöddu fólki í hungursneyðinni, og það varð til þess, að komið var þar upp eldhúsi sem ber nafn Íslands.

Þetta alt hefir orðið til þess, að Bandalagið hefir fengið góðan orðstír erlendis. Og eins og gefur að skilja, hefir starf sem Bandalagsins orðið til þess að auka mjög þekkingu útlendinga á landinu í ýmsum löndum, þar sem það var lítt eða ekkert þekt áður, og fyrir það eitt ætti fjelagið skilið að fá þennan styrk, og þó meira væri.

Bandalagið fór fram á styrk í fyrra til þess að koma einu áhugamáli sínu í framkvæmd. Það vildi gera tilraun til að koma á námsskeiði í almennum saumaskap, til þess að örva konur og kenna þeim að sauma handa heimilunum ýmislegt, sem flutt er inn, og auka á þann hátt innlendan iðnað. Þeirri málaleitun var synjað. Nú hefir bandalagið leyft sjer að hefja slíka málaleitun aftur. Hv. fjvn. hefir verið spör á að taka upp nýja liði og treystist ekki til að taka þennan. Sá jeg mjer því ekki annað fært en að fá góða menn til liðs við mig, til þess að flytja brtt. þessa. Bandalagið fer fram á dálítinn fjárstyrk. Tók það ekki til neina upphæð, en jeg hefi nefnt 800 kr., og til vara 500 kr. Vænti jeg þess fastlega, að hv. deildarmenn bindi sig frekar við hærri töluna en lægri. Ekki er því að leyna, að Bandalaginu er mikil þörf á styrk, þar sem það hygst að efna til stórrar sýningar á allskonar heimilisiðnaði á komandi sumri. Eins og hv. deild er kunnugt, hafa sýningar mikla þýðingu bæði fyrir nútíð og framtíð. Í fyrra hjelt Bandalag kvenna fjölskrúðuga blómasýningu hjer í Reykjavík. Árangur hennar varð meðal annars sá, að nú hygst Garðyrkjufjelag Íslands að halda slíka sýningu í sumar. Eins og jeg tók fram í upphafi þessa máls, er Bandalag kvenna á Íslandi meðlimur í alheimsbandalagi kvenna, og þó það hefði ekkert annað verksvið en að vekja athygli á íslensku þjóðinni úti um heiminn og afla henni viðurkenningar annara þjóða, væri það ærið nóg starf og alls ekki þýðingarlaust.

Fleira ætla jeg ekki að segja um þetta mál, en treysti hv. deild til að sýna fjelagsskap þessum nokkra viðurkenningu, með því að samþykkja brtt. á þskj. 394.