14.04.1924
Efri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

77. mál, seðlaútgáfuréttur ríkisins

Frsm. 2. hl. (Jóhann Jósefsson):

Eins og sjá má af nál. fjhn. um bankafrv., þá hefir nefndin klofnað í þrent um málið. Við tveir nefndarmenn, hv. 1. landsk. (SE) og jeg, höfum lagt það til, að málin væru athuguð til næsta þings. Þegar við vorum að kynna okkur frv., áttum við tal við bankastjórnir beggja bankanna og auk þess hæstv. fjrh. Hann óskaði eftir því, að öll þau bankamál, sem fyrir þinginu lægju, yrðu geymd til næsta þings, svo að ríkisstjórninni gæfist kostur á að rannsaka, hvernig seðlaútgáfunni yrði heppilegast fyrir komið. Þegar um slík stórmál er að ræða, sem bæði frv. á þskj. 105 frá hv. 2. þm. G.-K. (BK) og frv. á þskj. 173 eru, þá má segja, að þýðingarmikið sje, að vel sje athugað, hvernig þeim verði best ráðið. Miðhluti nefndarinnar álítur því, að fara beri eftir ósk hæstv. fjrh. (JÞ) og fresta málunum. Jeg er og á því máli, að nota beri frestinn til þess að undirbúa málin fyrir næsta þing, þannig, að þá liggi fyrir till. frá hæstv. stjórn, svo að hægt verði að ráða málunum til lykta á því þingi. Það hefir ef til vill verið dregið of lengi að ganga frá seðlaútgáfunni. En þó ber þess að gæta, að tímarnir eru mjög breytilegir nú og aðstaðan til þess að ráða slíkum málum til lykta eigi góð. Hinsvegar er öll fjárhagsnefndin á þeirri skoðun, að óheppilegt sje að draga þessi mál lengur en nauðsynlegt er. Þegar þess er gætt, að 2. hl. nefndarinnar hefir fallist á að vísa málinu til stjórnarinnar, þá leiðir af sjálfu sjer, að eigi tekur því að fara að ræða einstök atriði frv. Virðist það óviðeigandi á þessu stigi málsins. — Jeg gleymdi að geta þess í upphafi ræðu minnar, að frv. um seðlaútgáfu kom fram snemma á þinginu, en þess er getið í nál. Við höfum allir, nefndarmennirnir komið okkur saman um að leggja til, að frv. á þgskj. 105 verði afgreitt úr hv. deild með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þareð stjórnin hefir óskað, að henni gefist kostur á að athuga með aðstoð sjerfræðinga og undirbúa fyrir næsta þing endanlegt fyrirkomulag seðlaútgáfunnar og þar sem hjer er um mjög vandasamt mál að ræða, sem miklu skiftir fjárhag þessarar þjóðar, þá þykir rjett, að þessi undirbúningur fari fram, svo málinu geti orðið ráðið til lykta á næsta þingi, og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá.“