21.03.1924
Efri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

102. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (KlJ):

Þetta frv. er borið fram af háttv. fjhn., eftir tilmælum mínum, og get jeg viðvíkjandi því yfirhöfuð vísað til ræðu minnar um daginn um frv. það, sem háttv. 2. þm. G.-K. (BK) bar fram og hefir sama tilganga. Tilefni þessa frv. er það, að með lögum nr. 6. 31. maí 1921 er ákveðið, að ríkið taki smámsaman í sínar hendur seðlaútgáfurjettinn af Íslandsbanka. En þar sem ákveðið er, að ríkið taki við útgáfurjettinum, er vitanlega gert ráð fyrir, að Landsbankinn fái hann í hendur. Eftir þeim lögum, sem jeg vitnaði til, átti að vera útkljáð um þetta fyrir 1. júlí 1922, en hvað eftir annað hefir orðið að framlengja frestinn, og nú síðast var hann framlengdur til 1. júlí þ. á.

Það má ekki hafa þetta lengur ólögskipað. Þessvegna mæltist jeg til þess í síðastliðnum október við stjórn Landsbankans, að hún semdi frv. um þetta. Hefir Landsbankastjórnin orðið við þeim tilmælum og borið málið undir stjórn Íslandsbanka og notið aðstoðar hennar við samninguna. Þegar Landsbanka stjórnin fór að athuga málið, fann hún ástæðu til þess að athuga öll lög Landsbankans í heild sinni. Samdi hún því alveg nýtt frv. um alt skipulag bankans. Í þessu frv. er farið fram á gagngerða breyting á lögum bankans í ýmsum atriðum, og verði frv. þetta samþ., verða það grundvallarlög bankans, sem koma þá í staðinn fyrir stofnlög hans frá 1885, með þar til heyrandi viðaukum. Skal jeg í stuttu máli gera grein fyrir aðalbreytingunum.

Í fyrsta lagi eru ákvæði um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar, tryggingu þeirra o. s. frv.

Þar næst er hjer farið fram á að gera bankann að nokkurskonar hlutafjárbanka. Fyrst með því, að innskotsfje ríkissjóðs á síðustu 10 árum, kr. 100 þús. á ári, sem er því nú orðið 1 milj. kr., verði nokkurskonar stofnfje, og þar við bætist tillag ríkissjóðs næstu 10 ár, kr. 100 þús. á ári. Ennfremur er ákveðið, að auka megi hlutafje bankans um alt að 2 milj. króna. Þó bankinn, samkv. frv., verði hlutabanki, fá hluthafarnir engan íhlutunarrjett um stjórn bankans.

Önnur aðalbreytingin er um alveg nýtt stjórnarfyrirkomulag. Er gert ráð fyrir, að bankanum stjórni, auk hinnar eiginlegu bankastjórnar, fimm manna fulltrúaráð. Eru í 4. gr. frv. ítarlegar reglur um verksvið ráðsins. Fulltrúaráðinu er ætlað að hafa víðtækt eftirlit með allri starfsemi bankans, og skal það halda fund eigi sjaldnar en einu sinni á mánuði. Þriðja nýmælið, sem jeg tel mjög þarft, er um stofnun eftirlauna- og styrktarsjóðs fyrir starfsmenn bankans. (BK: Þetta eru gömul lög). Samkv. 24. gr. frv. skilst mjer samt vera allmikil breyting frá gömlu lögunum. Fjórða ákvæðið er, að Landsbankinn kaupi gullforða Íslandsbanka, sem nú nemur 2¼ milj. króna.

Finst mjer sjálfsagt að fresta umr. um þetta mál og vísa því aftur til fjhn. til nánari athugunar.