01.04.1924
Efri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg er þakklátur hæstv. forsrh. (JM) fyrir að hann hefir bent á þann ágalla, sem virðist vera á vegalagafrv., eins og þessi deild skildi við það, í þessu efni. Það var gott, að tilefni gafst til að athuga þetta í tíma, því að vegalagafrv. er nú í nefnd í hv. Nd., og er þar hægt að gera þær breytingar á því, sem með þarf. Því að vitaskuld er það hlægilegt að lögbjóða, að vegamálastjóri skuli hafa einn eða fleiri aðstoðarmenn. Það er fullnóg að taka það fram í lögunum, að atvinnumálaráðaneytið og svo vegamálastjóri skuli hafa höfuðstjórn vegamálanna á hendi.

Að því er snertir aðstoðarlækninn á Ísafirði, þá fæ jeg ekki skilið, að það skifti engu máli, hvort embættið er lagt niður eða ekki; því að um leið og einbætti þetta er lagt niður, þá á sá, sem gegnir því, engan rjett til launa. Vil jeg í því sambandi minna á það, að þegar landritaraembættið var lagt niður forðum, fjekk sá, sem hafði gegnt því, ekki lengur greidd embættislaun, heldur aðeins biðlaun og síðar eftirlaun.

Í fyrra virtist líka meirihl. þessarar hv. deildar því meðmæltur að fella niður laun umrædds læknis á fjárlögunum, en þetta strandaði á því, að það var ekki talið fært, vegna þess, að lögin frá 1907 voru álitin gilda ennþá. Mega því allir sjá, að máli skiftir, hvort þetta ákvæði þeirra er felt úr gildi eða ekki. Hvaða rjett læknirinn kynni að eiga til biðlauna, ef embættið er lagt niður, skal jeg láta ósagt um, en hafi hann þann rjett, þá verður að sætta sig við það.