16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Steinsson:

Jeg á brtt. á þskj. 394, sem jeg kemst ekki hjá að segja nokkur orð um. En áður en jeg minnist á þær, vildi jeg fara nokkrum orðum um fjárlagafrv. eins og það kom frá hv. Nd. og brtt. hv. fjvn. þessarar hv. deildar.

Því verður ekki neitað, að hv. Nd. og hv. fjvn. þessarar deildar hafa afgreitt fjárlagafrv. með allmiklum sparnaðarblæ. Og má með sanni segja, að aldrei hafi þing og stjórn síðastliðin 15 ár gert sjer meira far um að spara en einmitt nú. En þrátt fyrir það verður sparnaðurinn, þegar að er gætt, hvergi nærri heilsteyptur, því að um marga liði frv. eins og það kom frá hv. Nd. og marga þá liði, er hv. fjvn. þessarar deildar hefir sett inn í frv., verður ekki annað sagt en að þar gæti sparnaðarandans lítið. Hinsvegar má segja það um ýmsar smáupphæðir, er bæði hv. Nd. og hv. fjvn. þessarar deildar hafa felt niður, að þó að þær sjeu litlar, þá eru þær bráðnauðsynlegar, margar þeirra, og eiga ekki að komast inn undir sparnaðarrammann.

Áður en jeg minnist á brtt. mínar, vildi jeg fara nokkrum orðum um einstaka liði fjárlagafrv. Vildi jeg þá fyrst minnast á búin á Vífilsstöðum og Kleppi. Þykir mjer það mjög einkennilegt, að tekjurnar af búum þessum, hvoru um sig, skuli ár eftir ár vera jafnmiklar, sem sje 2000 kr. Er það sjerstaklega einkennilegt þegar þess er gætt, hversu misjafnlega árar á þessu landi. Jeg er ekki í neinum vafa um, að tölur þessar eru falskar, og þætti mjer því vænt um, ef hæstv. stjórn gæti gefið upplýsingar um það, hví verið er að setja þær í fjárlögin ár eftir ár.

Þá hefir Búnaðarfjelagi Íslands og Fiskifjelagi Íslands verið gerður allhár styrkur; hefir stjórnin áætlað 140 þús. kr. til Búnaðarfjelagsins, en 150 þús. til Fiskifjelagsins.

Hækkaði hv. Nd. hinn fyrri um 10 þús. kr., en hinn síðari um 5 þús. kr. Það er síður en svo, að jeg leggist á móti styrk til búnaðar- og fiskiveiðaframkvæmda, en reynslan hefir sýnt það, að aðeins lítill hluti þess fjár, er fjelögin hafa fengið, hefir farið til búnaðarframkvæmda eða til framkvæmda á sviði fiskiveiðanna, heldur hefir meginhluti þess farið til einstakra manna og skrifstofuhalds í Reykjavík. Með öðrum orðum, í stað þess að verja fjenu til verulegra framkvæmda, þá hefir því verið varið til skriffinsku í Reykjavík.

Þá vildi jeg minnast á 18. gr. fjárlagafrv., um eftirlaun embættismanna. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að það hefir um langt skeið verið almenn krafa þjóðarinnar, að afnumin yrðu öll eftirlaun í landinu. Enda hefir þingið viðurkent rjettmæti þeirrar kröfu með því að afnema eftirlaunalögin. Þykir mjer því furðu gegna, er þeir hinir sömu hv. þm., sem urðu til að afnema eftirlaunalögin, koma nú með marga nýja menn á eftirlaun. Og sjerstaklega þykir mjer furðulegt, að slíkt skuli henda á þessu þingi, sem hefir ætlað sjer að spara á öllum sviðum, eftir því sem unt væri. Nú hefir hv. Nd. og hv. fjvn. þessarar deildar komið með 8–10 nýja menn á eftirlaun, og eru sumar upphæðirnar svo háar, miðað við lögboðinn lífeyri og eftirlaun annara embættismanna, að furðu gegnir. Ef menn vilja ganga inn á þessa braut, þá verður að minsta kosti að heimta samræmi í þessu efni. En það gætir einskis samræmis í því, að láta mann, sem aldrei eða aðeins örstuttan tíma hefir verið í þjónustu ríkisins, njóta jafnhárra eftirlauna og þá, sem hafa verið það í 30–40 ár.

Þá vildi jeg minnast á brtt. hv. fjvn. Virðist mjer hv. nefnd yfirleitt hafa gengið fulllangt um hækkun, en samt sem áður mun jeg aðeins verða á móti 5–6 brtt. hennar. Það er þá fyrst aðstoðarlæknirinn á Ísafirði. Hefir þar lagst lítið fyrir kappann. Hefir hv. fjvn. klipið 300 kr. af því, sem hv. Nd. lagði til, að lækninum yrði veitt. Stjórnin vildi láta hann hafa 2300 kr., hv. Nd. lækkaði það niður í 1800 kr., en nú hefir háttv. fjvn. þessarar hv. deildar fært upphæðina niður í 1500 kr. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt, þá var læknir þessi skipaður 1907, með 800 kr. árslaunum. 1919 voru laun hjeraðslækna hækkuð, og ef laun þessa manns hefðu verið hækkuð að sama skapi, sem rjett hefði verið, þá hefðu þau orðið 1500–1600 kr., auk dýrtíðaruppbótar. Hæstv. fráfarandi stjórn skildi einnig, að þetta var rjett og miðaði upphæð sína við það. Er ekki hægt að neita því, að manni þessum er með till. hv. nefndar sýnt mjög mikið ranglæti. Hvort embætti hans er óþarft eða ekki, kemur málinu ekki við, því að hann á heimtingu á að vera í því á meðan það er ekki afnumið. Aðalatriðið er það, að læknir þessi fær ekki þau laun, sem hann á heimtingu á, samanborið við hjeraðslækna landsins.

Þá hefir hv. fjvn. lagt það til, að veittar yrðu 15 þús. kr. til sjúkraskýlis og læknisbústaðar í Borgarfjarðarhjeraði. Virðist mjer hv. fjvn. með þessu hafa gengið inn á ranga braut, og tel jeg, að hyggilegra hefði verið að halda fast við stefnu hv. Nd. í þessu efni. Hefði að mínu viti verið rjettara að tiltaka ákveðna upphæð til sjúkraskýla alment, en láta svo ríkisstjórnina úthluta fjenu eftir tillögum landlæknis og eftir því, sem ástæður lægju til í hvert skifti. Sú aðferð, að veita styrkinn í hvert sinn einhverju ákveðnu hjeraði, eins og hv. fjvn. hefir nú lagt til, leiðir til þess, að háð verður sífelt kapphlaup á þingi um þennan styrk. Það virðist óneitanlega margt benda til þess, að brýn nauðsyn sje fyrir hjerað það, sem um er að ræða, að koma upp sjúkraskýli, en þó hygg jeg, að nauðsynin sje þar ekki meiri en víða annarsstaðar. Ef landlæknir og landsstjórn álíta nauðsynlegt að koma upp sjúkraskýli í þessu hjeraði frekar en í öðrum hjeruðum landsins, þá mundi því engu síður verða veittur þessi styrkur til þess, þó að ákveðin væri viss upphæð, sem stjórnin ætti að fara með. Get jeg því ekki — þrátt fyrir fögur ummæli háttv. 1. landsk. þm. (SE) um þennan lið — greitt honum atkvæði.

Þá kem jeg að brtt. mínum. Fyrsta brtt. er við 12. gr. 13. í fjárlagafrv., um styrk til utanferða hjeraðslækna til þess að afla sjer nýrrar læknisþekkingar. Á undanförnum þingum, alt frá 1907, hafa verið veittar í fjárlögum 3000 kr. í þessu skyni, en nú hefir stjórnin felt styrkinn niður af óskiljanlegum ástæðum. Jeg þarf ekki að taka það fram, að það eru fáar vísindagreinar, sem tekið hafa jafnstórkostlegum framförum á síðustu árum sem læknisfræðin. Hafa hjeraðslæknar ekki átt kost á að kynnast nýungum á þessu sviði eins mikið og æskilegt væri fyrir þá, sem njóta hjálpar þeirra. Eru flestir þeirra ekki svo efnum búnir, að þeir geti styrklaust farið úr embættum sínum, þó ekki sje nema eitt ár, og kostað auk þess mann til þess að gegna embættinu í fjarveru sinni — og sjálfan sig erlendis. Styrkur þessi hefir hingað til borið mjög góðan árangur, enda er það alment álit þjóðarinnar, að svo sje. Jeg vona því, að hv. deild taki þessari brtt. vel. Jeg hefi ekki farið fram á meira en 2000 kr., en það er hið minsta, sem jeg álít, að hægt sje að komast af með í þessu skyni. Jeg hefði vitanlega kosið, að upphæðin yrði meiri; en jeg sá mjer þó ekki fært að fara hærra eins og sakir standa.

Þá er það 2. brtt. mín, við 12. gr. 13. lið, um geitnalækningar, að fyrir 2000 kr. í frv. komi 2500 kr. Hefir tvö síðastliðin þing verið veittur styrkur til þess að lækna þennan sjúkdóm, en sá styrkur hefir nú verið feldur niður af hæstv. landsstjórn. Er mjer sú ráðstöfun óskiljanleg. Eins og hv. þm. mun kunnugt, þá er sjúkdómur þessi ekki óalgengur hjer á landi. Samkv. skýrslum hjeraðslækna var tala geitnasjúklinga fyrir 1½ ári um 50–60, sem þó mun of lágt reiknað, því að sjúklingar þessir felast oft fyrir læknunum; þeir fá oft ekki vitneskju um þá fyr en seint og síðar meir. Fyrir 1½–2 árum hóf Læknafjelag Íslands baráttu gegn sjúkdómi þessum með tilstyrk ríkissjóðs. Árangurinn hefir orðið svo góður, að telja má víst, ef áframhaldið verður jafngott, að sjúkdómurinn þekkist hjer ekki eftir örfá ár. Sjúkdómur þessi er mjög hvumleiður, þó að honum fylgi ekki miklar líkamlegar hvalir, því að sjúklingarnir eru skoðaðir sem nokkurskonar „paria“ í þjóðfjelaginu, fyrirlitnir af öllum og eiga sjer ekki uppreisnarvon, þangað til þeir hafa fengið lækningu á sjúkdómnum.

Hjer er bæði um mannúðar- og menningarstarfsemi um leið að ræða. Þá ber og á það að líta, að læknishjálp er veitt þessum sjúklingum ókeypis. Styrkurinn hefir verið veittur til þess að greiða dvalarkostnað sjúklinganna meðan þeir njóta læknishjálparinnar; hefir þessi styrkur numið 3/5% hlutum af dvalarkostnaði þeirra. Jeg fer aðeins fram á óverulega hækkun, um einar 500 kr. Áður hafa verið veittar til þessara lækninga 3000 kr., og sparast því dálítið fje við mína till., sem fer ekki fram á nema 2500 kr.

Næsta brtt. mín bætir nýjum lið við í fjárlögin, 1000 kr. til fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna, til styrktar hjúkrunarnemum. Jafnhá upphæð, veitt í sama augnamiði, hefir staðið í fjárlögunum undanfarin ár, en háttv. Nd. hefir í þetta sinn felt þessa fjárveitingu niður. Þetta fjelag hefir það aðalmarkmið að menta íslenskar stúlkur til hjúkrunarstarfa, koma þeim fyrir í spítölum í Reykjavík, og er ætlast til, að þær sjeu þar við nám í tvö ár. Fyrstu þrjú missirin hafa þær nokkurt kaup og frían dvalarkostnað hjer, en síðasta árshelminginn er þeim ætlað að ganga til sjúklinga hjer í bænum utan spítalanna, og njóta þær þá engra fríðinda, nema ef einhver styrkur hefir verið veittur fjelaginu úr ríkissjóði til styrktar þeim á þessum hluta námstíma þeirra. Þetta er því bæði þarfleg fjárveiting og auk þess er trygging fyrir því, að hún komi að notum, er styrkurinn er aðeins veittur síðast á námstímabilinu. Er þetta að mun skynsamlegri fjárveiting en þegar veittar eru þúsundir króna til utanferða, þó að sagt sje, að nota eigi það fje til hjúkrunarnáms erlendis, því margir styrkþegarnir hafa aldrei komið þar í spítala, eða ef þær hafa stundað nám þar, hafa þær ílenst þar og aldrei komið hingað aftur. Það er því algerlega öfug stefna að veita fje til utanferða handa hjúkrunarnemum. Auk þess er engin ástæða til að styrkja þær erlendis, því þá fá þær kaup við spítalana, alt að 75–100 kr. um mánuðinn, og því fje, sem til þess hefir verið varið, hefir því verið algerlega á glæ kastað.

Þá kem jeg að brtt. minni við 14. gr. B. X a og b, um verslunarskólana báða, verslunarskóla Íslands og samvinnuskólann. Stjórnin hafði ætlað báðum þessum skólum 3000 kr. hvorum um sig í fjárlögunum, en fyrir einhverskonar kepni og reipdrátt í hv. Nd. komst þessi upphæð upp í 5000 kr. til hvors skólans fyrir sig, og hefir háttv. fjvn. ekki fundið ástæðu til að hrófla við því. (Atvrh. MG: Það var komið upp í 6000 kr. í Nd.). En hvað sem því líður, kom þó fram till. í Nd. um að lækka þetta aftur niður í 3000 kr., en það var felt. Jeg stend líklega einn uppi hjer á þingi með þá einkennilegu skoðun, að jeg álít skaðlaust, þó ekki einungis verslunarskólarnir, heldur ýmsir aðrir skólar, t. d. stýrimannaskólinn, legðust niður um nokkur ár. Framleiðslan á þessum sjermentuðu mönnum er orðin það alt of mikil, að það er áreiðanlegt, að fjöldi manna, sem útskrifast hefir frá þessum skólum, getur alls ekki vænst að fá neinar þær stöður, sem þeir hafa verið búnir undir að gegna, fyr en þá einhvern tíma, ef þeir ná hárri elli. Það er því áreiðanlegt, að það mundi sparast mikið fje og á mörgum sviðum við það, að einhverjir af þessum skólum yrðu lagðir niður í bili. Það mundi sparast alt tillag úr ríkissjóði til þessara skóla, allur námskostnaðurinn, sem er allmikið fje, og auk þess mundu losna miklir vinnukraftar, þar eð allur sá fjöldi, sem þarna hefir sótt nám, yrði neyddur til að leita sjer einhverrar annarar atvinnu. Þetta kann nú að þykja svartsýni hjá mjer, en jeg get nú ekki við því gert, að jeg hefi haft þessa skoðun í seinni tíð, og í samræmi við þessa skoðun mína er það, að jeg flyt þessar brtt., en alls ekki af neinum kala til skólanna. En að jeg hefi í þetta sinn ekki komið með till. um að leggja fleiri skóla niður að sinni eins og t. d. stýrimannaskólann, stafar af því, að það er ekki hægt að leggja lögfest embætti niður, og laun kennaranna við þann skóla yrðu því greidd úr ríkissjóði eftir sem áður, og yrði því sparnaðurinn minni.

Þá á jeg næst brtt. við 15. gr. 35, að styrkurinn til frjettastofu Blaðamannafjelagsins verði feldur niður. Þessi fjárveiting er ein af því fáa, sem ekki hefir staðið í stjfrv., en verið bætt við síðar. Stjórnin sýndi þarna meiri sparnað en þingið. (SE: Það var víða í frv. stjórnarinnar farið fram á meiri sparnað en þó þetta væri sparað). En þetta er þó einn af þeim mest áberandi sparnaðarliðum, sem þingið hefir tekið upp í fjárlögin. Þar sem ekki hefir áður verið varið nema mjög lágri upphæð í þessu skyni til verslunarráðsins, sje jeg ekki, að ástæða sje til að styrkja þetta með svo gífurlega hárri upphæð, en legg því til, að þetta verði annað tveggja alveg felt niður eða lækkuð fjárveitingin niður í 2000 kr.

Þá á jeg aðeins eftir eina brtt., við 16. gr. 3, að aths. við styrkinn til búnaðarfjelaganna falli niður. Aths. leggur það til, að styrkurinn skuli ákveðast og miðast við sameiginlegar framkvæmdir innan fjelaganna. Áður var styrkurinn veittur samkvæmt dagsverkatölu, sem unnin höfðu verið, án tillits til, hvort það voru sameiginlegar framkvæmdir eða einstakir menn, sem höfðu int þær af hendi. Jeg tel það verða mundu mjög óheppilegt, ef þessi aths. fær að standa óhögguð. Hún mundi verða til þess að draga úr atorkusemi manna. Fátækir bændur mundu hennar vegna síður ráðast í framkvæmdir í jarðabótum. Þó að styrkurinn hafi jafnan verið lágur, hefir hann þó ávalt verið til uppörvunar mönnum að fást við jarðabætur og aðrar búnaðarframkvæmdir, en þessi uppörvun hverfur, ef aths. fær að standa. Það hefir átt að smeygja inn svipaðri aths. og þetta við þennan lið fjárlaganna á tveimur undanförnum þingum, og jeg segi það, þessari háttv. deild til sóma, að þessi aths. hefir strandað hjer í bæði skiftin, og vona jeg, að hún fari sömu leið nú sem áður.

Þá hefi jeg ekki fleiri brtt. að flytja, en um leið og jeg lít yfir ýmsar þær brtt., sem aðrir hv. þm. hafa hjer borið fram, verður fyrir mjer uppvakningur einn neðan úr háttv. Nd. Mig minnir, að það væri háttv. 1. þm. Árn. (MT), sem bæri á örmum sínum inn í þá háttv. deild háaldraða sæmdarkonu, sem verið hafði ljósmóðir um ein 50 ár. En það tókst nú ekki betur fyrir honum en það, að þessi góða, gamla kona sálaðist í örmum hans þar í deildinni. Nú þurfti því að blása inn nýjum lífsanda, og hefir háttv. 1. þm. Árn. fengið til þess tvo fíleflda landsk. þm„ og bera þeir nú júbil-ljósmóðurina hjer inn í þessa háttv. deild. Nú hefi jeg aldrei efast um það, að þessi aldraða og góða kona er alls góðs makleg, en jeg vil aðeins geta þess, að þetta er hvergi nærri því að vera einsdæmi. Jeg minnist þess, að til er í mínu læknishjeraði yfirsetukona, sem hefir haft þau störf á hendi um 51 ár, og get jeg tekið það fram um leið, að hún hefir verið mjög góð ljósmóðir. Jeg hefi starfað með henni sem læknir um 25 ár og get jeg sagt það, að jeg hefi ekki þekt aðrar betri. Og áður en jeg fór til þings nú í vetur, komu ýmsir vinir og kunningjar þessarar konu til mín og spurðu mig, hvort jeg treystist ekki til að útvega henni styrk úr ríkissjóði, þar sem hún er nú öldruð orðin og getur ekki starfað lengur, en er illa efnum búin. En jeg svaraði því, að jeg sæi mjer þetta ekki fært, nema ef það kæmu fram og yrðu samþyktar svipaðar styrkbeiðnir úr öðrum áttum. En verði þessi till. samþykt, tel jeg mjer skylt að koma fram með brtt. um þetta við 3. umr., því með allri virðingu fyrir þessari góðu gömlu júbil-ljósmóður, tel jeg þá konu, sem jeg nú nefndi, engu síður styrks maklega en hana.