29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

39. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Halldór Stefánsson):

Frv. þetta til breytingar á núgildandi kosningalögum, sem við þm. N.-M. berum fram, berum við fram að óskum margra kjósenda okkar, og falla þær saman við eigið álit okkar.

Það er alment talið svo, að með almenna kosningarrjettinum beri kjósendur ábyrgðina á löggjöf og stjórnarfari. Jeg hefi ýmislegt að athuga við þá skoðun, þar á meðal það, að kjósendum er með gildandi lögum ekki gert hæfilega auðvelt að neyta þessa rjettar síns.

Breytingar þær, sem hjer er farið fram á, lúta allar og eingöngu að því að tryggja það og gera það auðveldara kjósendum að geta neytt kosningarrjettarins.

Efnisbreytingarnar eru þrjár: 1) Heimild til að skifta hreppum í kjördeildir. 2) Færsla kjördags frá hausti til vors. 3) Breyting á kjörgögnum og kjörseðlum. Aðrar breytingar eru aðeins orðabreytingar, sem leiða af þessum framantöldu.

Jeg skal nú víkja að hinum einstöku breytingum.

Tillagan um, að skifta megi hreppum í kjördeildir, styðst við það, að sumstaðar eru staðhættir þannig, að torvelt er að sækja kjörfund á einum degi, vegna vegalengda og tálmana af vötnum. Fordæmi fyrir slíkri skiftingu í kjördeildir er í núgildandi kosningalögum um skifting kaupstaðanna í kjördeildir. Og það er gert í sama tilgangi: að tryggja og auðvelda kosningarjettinn, þó að aðrar ástæður liggi þar til, skiftingarinnar.

Þá er um færslu kjördagsins. Fyrsti vetrardagur eru illa valinn kjördagur, einkum fyrir sveitirnar. Þá eru dagar stuttir, von allra veðra, og oftast ilt umferðir, einkum fyrir kvenfólk. Haustveðrátta er svo ótrygg og hættuleg, að mjög ótrygt er, vegna fjenaðarins, að allir liðtækir menn fari frá heimilunum. Eitt stórhríðarveður getur þá hrakið og lagt undir fönn fjölda fjár, aðeins fyrir það, að menn eru fjarstaddir heimilum sinum. Kjördagur seint á vori hefir ekki þessa ókosti. Þá eru dagar langir, engin hætta með fjenað, og torfærulaust um ferðir.

Loks er breytingin á kjörgögnum. Eins og nú er ákveðið eru önnur kjörgögn notuð við kjördæmakosningarnar heldur en við landskjörið. Af því leiðir óvissu kjósenda, og enda kjörstjórna — eins og dæmi þekkjast til frá síðustu kosningu — um það, hvaða kjörgögn eigi að nota, og hvernig. Stimpillinn og stimpilpúðinn eru áhöld, sem flestir kjósendur eru óvanir að nota, enda getur stimpillinn auðveldlega bilað, og þar sem enginn varastimpill er til, þá er ekki auðvelt úr að bæta. Af stimpilblekinu geta kjörseðlar auðveldlega klínst, annaðhvort fyrir óhöndugleik kjósanda, eða að óvöru, og það getur svo valdið ógildingu atkvæðisins. Blýantur er þar á móti áhald, sem allir þekkja og eru tiltölulega leiknir í að fara með. Af þessum ástæðum virðist rjett að samræma aðferðirnar við hlutbundna og óhlutbundna kosningu og velja þá, sem auðveldari er. Ef tekinn væri upp blýanturinn, þá virðist okkur að breyta þyrfti kjörseðlunum þannig, að stækka auða reitinn í borðanum úr ½ í 1 cm. í þvermál, því það er nokkuð hæpið fyrir t. d. skjálfhenta kjósendur að hitta á að gera greinilegan kross í reitinn eins og hann er nú.

Hjer er komið fram annað frv., þar sem aðalmarkmiðið er það sama: að gera kjósendum hæfilega auðvelt fyrir um kosningaathöfnina. Hefir því frv. verið vísað til nefndar, og vona jeg, að svo verði líka gert um þetta frv., og getur nefndin þá athugað hinar mismunandi tillögur. — Jeg fjölyrði svo ekki meira um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og allshn., að lokinni þessari umr.