29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

39. mál, kosningar til Alþingis

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta mál. Aðeins vil jeg benda á það í þessu sambandi, að mjer er ekki kunugt um, að nokkur almenn óánægja ríki vegna stimpilsins. Það er ekki frambærileg ástæða, að þeir, sem ekki geta notað stimpil, geti betur notað blýant. Blýanturinn var notaður fyrst, og þá munu ógild atkvæði hala verið mun meiri en síðan var breytt til. Að seðlar sjeu taldir ógildir, ef sjest á þeim blekklessa, held jeg sje ekki rjett, svo framarlega sem það er sýnilegt, að um það þurfi ekki að efast, hvern viðkomandi vildi kosið hafa.

Jeg man ekki til, að jeg hafi heyrt neina óánægju yfir stimplinum, nema aðeins frá einum manni í Gullbringu- og Kjósarsýslu, er bauð sig þar fram, fyrsta árið, sem þessi kosningaaðferð var notuð, og virtist kenna stimplinum um það, að hann náði ekki kosningu. Um almenna óánægju mun alls ekki vera að tala.

Flm. (HStef) talaði um það, að það væri vandi að gera við stimpilinn, ef hann bilaði, en þá fer nú flest að verða örðugt, ef viðgerð á jafneinföldu áhaldi er nokkrum torveldleikum bundin.

Þá talaði hv. flm. um færslu kjördagsins, sem væri nú mjög óhentugur fyrir sveitirnar. Það kann að vera rjett, að svo sje sumstaðar háttað, að núverandi kjördagur sje óheppilegur, sjerstaklega fyrir Norður- og Austurland, og ef til vill fyrir sumar sveitir á Vesturlandi. En jeg hygg, að hvaða kjördagur sem ákveðinn yrði, þá mundi svo reynast, að hann yrði óheppilegur fyrir einhver hjeruð. Hvernig sem menn deila um þetta atriði, mun það verða flestra sanngjarnra manna álit, að núverandi kjördagur sje heppilegri fyrir sjómenn en að færa hann til sumarsins.

Frv. gerir ráð fyrir því að skifta hreppunum í kjördeildir. Þá ætti það að verða til þess að gera menn ánægðari með kjördag þann, sem nú er, ef það er aðallega, sem menn setja út á hann, að tíðarfars vegna sje erfiðara að sækja kjörfund um veturnætur, af því svo hagi til, að langt sje til kjörstaðar.

En annars er vandi að finna fyrirkomulag, sem ekki væru örðugleikar á og óánægja fylgdi. Á þetta vil jeg benda nefndinni, og vona jeg, að hún hugsi sig vel um áður en hún gangi inn á frv. Það mætti slá því fram, að kosið yrði á hverju heimili. — Annars er þetta sífelda hringl alls ekki til bóta. Að vísu var jeg með síðustu breytingu á lögunum, en reynslan hefir sýnt, að hún hefði betur verið ógerð, því eftir því sem heimakosningarnar hafa verið framkvæmdar við síðustu kosningar, þá má telja þær hafa orðið til stórvanvirðu.