14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

39. mál, kosningar til Alþingis

Þórarinn Jónsson:

Jeg mun ekki eltast við hinar ýmsu brtt., en sýni með atkv. mínu, hvernig jeg lít á þær. 1. brtt. nefndarinnar, um skifting hreppa í kjördeildir, finst mjer eðlileg og sjálfsögð. Það gæti bara verið álitamál, hvort hún gengi ekki heldur skamt. Eftir till. má ekki skifta hrepp nema í tvent. En það er sýnilega mikið heppilegra að geta skift í þrent. Mjer datt í hug, að það hefði mátt orða þetta: 2 eða fleiri. En það má þó hártoga, og betra að heimila að skifta í 2 eða 3 kjördeildir. Í mörgum tilfellum er það ekki of langt gengið. Jeg þekki hreppa með 60–70 kílómetra strandlengju, og dölum upp af. Þar er sannarlega þörf á, að kjördeildir sjeu fleiri en ein og fleiri en tvær, þegar það er athugað, að bæjunum og stærri kauptúnum er skift í fjölmargar kjördeildir. Hv. 2. þm. N.-M. gat um dæmi þess, að 4 daga ferð væri á kjörstað, fram og til baka. Mjer virðast 2 dagar fullmikið, þar sem hjer er ekki ætlast til að stytta leiðina nema um helming, og ástæða til að ljetta betur undir með kjósendum, þar sem slíkir erfiðleikar eru.

Annað atriði, sem jeg vildi minnast á, er færsla kjördagsins. Það er vitanlegt, að 1. vetrardagur er ekki heppilegur, vegna þess, hvernig þá getur verið komið færð og veðráttu. En sá tími, sem hjer er stungið upp á, er þó tvímælalaust allra mesti annatími ársins, þar sem jeg þekki til. Og mun alstaðar vera svo um seinnihluta vorsins í sveitahjeruðum landsins. Þá kemur til fjársmölun, rúning, rekstur á afrjetti, ullarverkun, kaupstaðarferðir og undirbúningur undir slátt. Þessi tími er því mjög óheppilegur til þess að undirbúa kosningar. Jeg held jeg verði því að vera á móti þessari færslu, ef ekki verða aðrar sjerstakar ástæður, sem knýja mig til hins gagnstæða.

Þá er enn eitt atriði, sem sje sú brtt. nefndarinnar, að seðill skuli gildur í tvímenningskjördæmi, þó ekki sje nema einn kosinn. Jeg vil undirstrika það, að ef þetta verður samþykt, þá verða hjer tvær lagasetningar í sama lagabálki, hvor annari andstæðar. Eftir 33. gr. má ekki kjósa færri en 2, en eftir 36. gr., ef brtt. nefndarinnar verður samþ., má kjósa einn. Orðalag 33. gr. er svo ljóst, að ekki verður um það deilt, þar sem það er tekið fram, að kjósandi skuli gera merki framan við „nafn þess, eða nöfn þeirra, ef fleiri en einn á að kjósa“ (JÞ: „sem kjósandi vill velja.“) Jeg býst ekki við, að kjósandi vilji annað en velja tvo þm., þar sem tvo á að kjósa, því ella neytir hann ekki fulls kosningarrjettar síns. Með þessu getur hann því aðeins spilt fyrir sjer. Það myndi heldur ekki teljast full kosning í tvímenningskjördæmi, ef aðeins einn þm. yrði kosinn, og er það full skýring á þessu. Með því að taka einsatkvæðisseðla gilda í tvímenningskjördæmum, er pólitískum andstæðing gefið vopn í hönd. Hann getur sagt við kjósendur, er hann veit, að eru eindregnir með andstæðing hans, að þeir skuli bara kjósa hann einan, með því sýni þeir traustast fylgi. En þar sem svo þessi atkvæði yrðu metin ógild, eins og þau eru nú að lögum, þá eru þetta einföld ráð til að fella mótstöðumann sinn.

Út í aðrar brtt. ætla jeg ekki að fara að sinni.