14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

39. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jón Kjartansson):

Þetta mál sem hjer liggur fyrir, er stórmál, og jeg get ekki tekið undir með þeim, sem ekki vilja, að um það sje rætt. Fyrst vil jeg fara nokkrum orðum um þann ágreining, sem hefir orðið út af brtt. nefndarinnar við 36. gr. Jeg get ekki betur sjeð en með því sje verið að samræma orðalag og grundvallarreglur kosningalaganna. Það á vitanlega ekki að ógilda atkvæðaseðil, þó sjáist á honum blettur, nema því aðeins, ef ætla má, að bletturinn sje gerður til þess að auðkenna hann. Hjer er aðeins verið að lagfæra þetta ákvæði, svo það komist í meira samræmi við grundvallarreglu kosningalaganna.

Þá er undarlegt, að mótmælin gegn till. nefndarinnar um atkvgr. í tvímenningskjördæmum hafa aðallega komið frá mönnum þaðan, og aðalröksemdin hefir verið sú, að þessir hv. þm. óttast, að ef þessu yrði slegið föstu, þá væri hætt við, að ekki yrði nema einn kosinn. Þetta finst mjer mjög ljeleg ástæða og að þingmennirnir lýsi með því miklu vantrausti á sjálfum sjer. Þá staðfesta þeir hinsvegar með þessu þá skoðun okkar í nefndinni, að með þessu móti, sem nú viðgengst, gætu einhverjir flotið inn á þing með sama sem engu fylgi. En það á ekki að eiga sjer stað. Annars er þessi ástæða óframbærileg, líka vegna þess, að þá má með sama rjetti segja, að enginn verði kosinn. En vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu nú, að allir geti skilað auðu, og þá er auðvitað enginn kosinn heldur.

Þá vil jeg svara fyrirspurn frá háttv. 2. þm. Eyf. (BSt) um það, hvort það væri tilætlun nefndarinnar, að oddviti og hreppstjóri stjórnuðu kosningu í kjördeildum, og ef þeir ættu heimili báðir á sama kjördeildarsvæði, hvernig þá færi með atkvæðagreiðslu þess, sem stjórnaði kosningu í hinum hlutanum. Auðvitað er það tilætlunin, að hreppstjóri og oddviti sjeu oddvitar kjörstjórnanna, sinn í hvorri kjördeild. En hvað snertir atkvæðagreiðslu þess þeirra, sem þarf að stjórna kosningu utan sinnar kjördeildar, þá er það vitanlega mjög einfalt. Hann nýtur kosningarrjettar síns samkv. hinu almenna ákvæði í 32. gr. kosningal., um kosning í öðrum hreppi, innan kjördæmisins. Hann þarf ekki annað en hafa með sjer vottorð um það, að hann standi á kjörkrá á hinu kjördeildarsvæðinu.

Þá er aðalmótbáran gegn færslu kjördagsins, sú, að með því sje sjómönnum gert erfitt fyrir um að neyta kosningarrjettar síns. Nú veit háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem einkum hefir komið með þessa mótbáru, að það var vegna sjómannanna, að kjördagurinn var ákveðinn 1. vetrardag. En síðan hafa komið lög um kosningu utanhjeraðsmanna, og þar með er ástæðan með 1. vetrardegi fallin, því það ákvæði var sett til að gera sjómönnum einkum hægt fyrir. Og fjarstaddir sjómenn eiga einmitt hægra með að koma atkvæðum sínum til undirkjörstjórna sinna á sumrin en á haustin, því þá eru samgöngur greiðari. Þetta atriði álít jeg að verði einmitt þvert á móti til talsverðra þæginda fyrir sjómennina. Það er vitanlegt, að hjer í Rvík eru flestir sjómenn í landi um mánaðamótin júní og júlí, að minsta kosti þeir, sem sjó stunda á togurum, því á þessum tíma liggja þeir jafnan inni að undirbúa sig undir síldveiðarnar, sem hefjast eftir miðjan júlí. En á haustin eru þeir oftast nær allir úti á ísfiski.

Háttv. þm. Ak. (BL) telur sig vera íhaldsmann, og erum við flokksbræður að því leyti, en jeg sje ekki, að hann hafi ástæðu til þess að finna að því, þótt lagfærður verði augljós galli á lögunum. Einnig heyri jeg af ræðu hans, að hann er fylgjandi aðalbreytingunum, sem nefndin leggur til, að gerðar sjeu á kosningalögunum, og erum við þá sammála að því leyti. Þá fann sami hv. þm. (BL) flutningi kjördagsins ýmislegt til foráttu, taldi t. d., að á vorin mundu menn síður hirða að sækja þingmálafundi og síður hugsa almenn mál. Þetta held jeg, að sje eigi rjett. Jeg held þetta geti ekki heimfærst upp á sveitirnar, því að á haustin eru allar ferðir þar erfiðari og meiri vandkvæðum bundið að halda mannfundi. Á vorin geta menn tekið tímann, er hentast þykir, en á haustin er víðast hvar annatími mikill rjett fyrir kosningarnar; þá stendur yfir haustkauptíðin og sláturtíminn; auk þess sem haustkauptíð og sláttur ná oft saman. Jeg hygg því, að þetta sje bygt á misskilningi hjá háttv. þm. (BL).

Háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) spurðist fyrir um það, hvort ekki væri með þessum breytingum verið að fremja glæp á kosningalögunum og benti í því sambandi á þá brtt. okkar að flytja til um gildi kjörskránna, að það kæmi í bág við kosning þeirra, sem nytu kosningarrjettar síns fyrir kjörfundinn, og nefndi í því sambandi sjómenn og aðra, sem fjarverandi væru. En þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm. Við heimakosningar er alls eigi litið á neina kjörskrá. Það getur komið fyrir við heimakosningar, að maður kjósi, sem alls ekki er á kjörskrá. Á kjördegi athuga undirkjörstjórnir þau brjefaatkvæði, sem til hennar hafa borist, og gæta að því, hvort þeir, sem kosið hafa, eru á kjörskrá og úrskurðar um gildi þessara atkvæða. Sá, sem tekur atkvæðið, hefir ekkert með kjörskrá að gera, enda oftast ekki hjá honum þær kjörskrár, sem sá stendur á, er kjósa vill.

Jeg vil svo ekki þreyta hv. deild á frekari aths. um þetta, en vil þó nota tækifærið til þess að mótmæla því, sem tveir hv. þm. hafa haldið fram — þeir hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. S.-M., — að það væri brot á gildandi kosningalögum, ef tekin yrði gild atkvæði úr tvímenningskjördæmum, þar sem aðeins einum frambjóðanda hefði verið greitt atkvæði, og hafa þeir vitnað til 33. gr. kosningalaganna í þessu efni. Hv. þm. S.-M. las upp atriði úr nefndri lagagrein, en stöðvaði auðvitað lesturinn, er hann kom að því atriði greinarinnar, sem laut að því gagnstæða. Jeg hefi heyrt mjög góða lögfræðinga láta álit sitt uppi um þetta atriði, þar á meðal mann, sem á sæti í hæstarjetti, og töldu þeir ekkert því til fyrirstöðu í kosningalögunum, að einum manni af tveimur væri aðeins greitt atkvæði. Jeg álít þetta alls ekki vera lögbrot, en af því það hefir verið föst venja hjá kjörstjórnum að ógilda slíka atkvæðaseðla, þótti rjett að taka af allan vafa í þessu og setja ákvæði um þetta inn í lögin.