16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög 1925

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi hingað til dregið mig í hlje fyrir hinum eldri og reyndari þm., en það má vera, að jeg hafi ekki unnið við það, er háttv. deild nú er þreytt orðin, og jeg fái því ekki vakið athygli hennar sem skyldi við mínu máli. Jeg ætlaði mjer að víkja fáeinum orðum að nokkrum liðum í brtt. háttv. fjvn., ekki af því, að jeg telji mig svo mjög færan um að bæta úr verkum hennar, heldur af því, að jeg hefi að ýmsu leyti ekki getað orðið henni sammála. Það er þá fyrst brtt. fjvn. um landhelgisgæsluna; ekki svo mjög af því, að jeg sje ósamþykkur till. fjvn. um hækkunina á þessum lið, en jeg er ekki allskostar ánægður með þá aths., sem liðnum fylgir frá hv. nefnd. Það er aðeins vegna þess, sem jeg hefi hjer áður í þessari hv. deild í umr. um annað mál lýst yfir, að jeg væri mótfallinn fyrirkomulaginu á þessum lið og þeirri stefnu, sem þar kemur fram. Og þó jeg nú á þessu þingi sjái mjer ekki annað fært en að ganga inn á þessa braut, vil jeg þó slá þann varnagla, að jeg tel mig óbundinn af þessu eftirleiðis. Jeg hefi aðeins gengið inn á þetta sem bráðabirgðaráðstöfun að þessu sinni.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að fjárveitingunni til jarðskjálftarannsókna. Það er ekki um brtt. sjálfa, sem jeg þó tel óvíst, að jeg geti fylgt, en það er í sambandi við það, sem fram hefir komið hjer í umræðunum, að jeg vildi gjarnan fá upplýst eitt atriði. Það hefir verið sagt, að landskjálftamælirinn væri hjer að láni, en jeg hefi fyrir mjer orð kunnugs manns, sem fullyrðir, að hann sje gjöf frá Dönum. Ef þetta síðara er rjett, hví er það þá notað sem keyri á þingið til fjárveitingar, að mælirinn sje að láni, — að hann verði tekinn frá okkur, verði hann ekki starfræktur! Sje það satt, að hann sje lánaður okkur, verður eitt af tvennu að starfrækja hann eða skila honum aftur; reynist það rjett, að mælirinn sje aðeins að láni, verð jeg sennilega með þessari fjárveitingu, en aftur á móti ef það er rjett, að mælirinn sje okkar eign, þá tel jeg enga brýna nauðsyn að starfrækja hann á meðan fjárhagurinn er svo þröngur sem nú.

Þá eru ekki margir aðrir liðir, sem jeg finn mjer skylt að lýsa afstöðu minni til; mun það sjást við atkvgr., hverju jeg fylgi.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 376, um 1000 kr. styrk til hjónanna í Hítardal. Forsendurnar fyrir þessum styrk eru þær, að þessi hjón hafa barist áfram með 10 börn, og er þá ætlunin sú, að forða þeim með þessu frá að þurfa að leita sveitarstyrks. En ef ástæða er til að veita þessum hjónum 1000 kr. styrk, vegna þess að þau eiga 10 börn, hversu miklu meiri ástæða er þá ekki til að veita þeim hjónum styrk, sem eiga þetta 12, 15 og alt upp í 20 börn? Jeg býst við, að í flestum hjeruðum landsins megi finna hjón, sem líkt stendur á fyrir og þessum, og fleiri heimili, sem berjast í bökkum. Í minni sveit eru til dæmis 3 heimili með 13–15 börn. Svona má víst telja í flestum sýslum landsins. En verði nú þessi styrkur veittur, þá er jeg þess fullviss, að fleiri slíkar beiðnir muni á eftir fara, og þá er misrjetti beitt, ef þeim er neitað, úr því einu sinni hefir verið gengið inn á þessa braut. En það er áreiðanlega ofætlun fyrir ríkið að hugsa til að verja allar þær fjölskyldur frá því að leita sveitarstyrks. Og það væri ekki einu sinni rjettlátt að miða slíkar styrkveitingar sem þessar við 10 eða 11 börn. Það getur nefnilega oft verið eins mikil ástæða til að veita fjölskyldum styrk, sem ekki hafa nema 8 börn. Jeg skal viðurkenna, að það er lofsverður áhugi, er sveitungar þessara hjóna hafa sýnt í því að útvega þeim þennan styrk. En sje það rjett haft eftir, að ein prófastsfrú hafi varið 1000 kr. til ferðalags til Reykjavíkur og dvalar hjer í því augnamiði, þá verð jeg að segja, að því fje hefði verið betur varið, hefði það farið beint til hjónanna í Hítardal. Og þó sárt sje að neita þessari beiðni, þá er það líka sárt að gera svo miskunnarverk, að mörgum öðrum sje með því órjettur ger. Fjölyrði jeg svo ekki frekar um þetta, en vænti, að hv. þdm. sje ljós orðin afstaða mín í þessu máli.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í fleiri liði á þskj. 376. Þeir eru þannig vaxnir, að jeg get látið mjer nægja að sýna afstöðu mína við atkvgr.

Á þskj. 394 á jeg 3 brtt., sem jeg vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um. Er sú fyrst, að jeg legg til, að hækkaður verði styrkur til Fiskifjelags Íslands úr 55 þús. kr. upp í 65 þús. kr. Jeg hafði nú hugsað, að enginn háttv. þm. væri þeirrar skoðunar, að þetta fjelag væri ekki mjög nauðsynlegt og í alla staði þess vert að fá ríflegan styrk. Því furðaði mig á því, að háttv. þm. Snæf. (HSteins) virtist álíta, að bæði styrkur til þessa fjelags og eins til Búnaðarfjelags Íslands væri of hátt áætlaður, og rökstuddi hann þá skoðun sína með því, að því er virtist, að fje þessu væri illa varið og lenti mest í skrifstofukostnaði. Jeg vil ekki deila um þetta við háttv. þm., en mjer liggur nærri að álíta, að hann muni lítt hafa rannsakað allar aðstæður áður en hann feldi þennan dóm. En það stendur svo vel á, að jeg hefi í höndum skýrslu Fiskifjelags Íslands, og er þá hægt að ganga úr skugga um, hvort það sje satt, að alt að helmingi styrktarfjárins fari til launa embættismanna fjelagsins. Að vísu er það rjett, að altaf hlýtur nokkru fje að vera varið til starfsmanna og erindreka fjelagsins, og er það mjög eðlilegt, þegar þess er gætt, að fjelagið er ennþá tiltölulega ungt og ekki búið að ná þeirri fótfestu, sem það þarf, úti um landið, og verður því að gera mikið til þess að breiða það út á fjelagslegum grundvelli. En það er auðvitað, að sú starfsemi gefur ekki af sjer neinn beinan peningalegan hagnað fyr en síðar meir. Það er nú svo, að til stjórnar fjelagsins, starfsmanna þess, erindreka og ferðakostnaðar þeirra er alls varið um 20 þús. kr., og verður ekki annað sjeð en að í þessu efni sje eins varlega farið og hægt er. Og það eru alveg ótrúlega miklar verklegar framkvæmdir, sem eftir fjelagið liggja þessi ár, sem það hefir starfað. Auk þess hefir það tekið þá föstu og sjálfsögðu stefnu að leggja árlega nokkurt fje í varasjóð, og er hann nú um árslokin orðinn ca. 80 þús. kr. En nú stendur svo á, að eftir fjárhagsáætlun þingsins mun alt útlit fyrir, að á yfirstandandi ári og eins á árinu 1925 verði að skerða þennan sjóð til mikilla muna, ef halda skal áfram nauðsynlegum framkvæmdum og styrkurinn til fjelagsins verður ekki hækkaður talsvert frá því, sem hann er í fjárlagafrv. Til að bæta leiðir og lendingar er áætlað, að fari 18 þús. kr. 1925 og 15 þús. 1926, og til utanfara 2500 kr. hvort árið. Þá hefir Fiskifjelag Íslands haldið uppi mótornámskeiðum, og er búist við, að lagt verði til þeirra 6 þús. kr. hvort árið, 1925 og 1926. Er þetta mjög mikill og góður liður í starfsemi fjelagsins og getur komið að hinu mesta gagni. Auk þess hefir fjelagið hugsað til að koma upp sjómannanámskeiði, og er það mjög nauðsynlegt fyrir skipstjóra- og stýrimannaefni, því það er ekki nóg að kunna sína stýrimannafræði til hlítar, ef alla þekkingu brestur þegar til hins verklega kemur; en reynslan hefir verið sú, að það er undantekning ef menn frá stýrimannaskólanum kunna nokkuð að ráði í verklegri sjómensku. Gæti námskeið sem þetta gert mikið til að bæta úr þeim annmörkum. Á Austurlandi hafa slík námskeið verið haldin undanfarin ár og borið auðsýnilegan og mikinn árangur.

Enn fremur má geta þess, að áætlað er, að 4500 kr. fari til annara styrkveitinga, svo sem til nýrra fiskverkunaraðferða o. s. frv. Efast jeg ekki um, að gott megi af því leiða, ef hægt verður að halda slíkum tilraunum áfram.

Þá vil jeg ennþá minnast á eitt atriði, sem í mínum augum er alls ekki lítilsvert. Á jeg þar við klaktilraunir. Hingað til hafa fiskveiðar okkar eingöngu verið rányrkja, og eru að verða einhver mesta rányrkja, sem við þekkjum, síðan botnvörpungarnir komu. En klakið er ofurlítið spor í áttina til að halda við þessum atvinnuvegi, sem svo margir meðal okkar þjóðar hafa lífsuppeldi sitt af. Og þó þessi viðleitni sje enn ekki komin svo langt hjá okkur, að við sjeum farnir að klekja út þorski, þá er silunga- og laxaklakið alls ekki lítilsvert. Tel jeg það hinn mesta heiður fyrir fjelagið, að hafa hafist handa í þessu efni, og má því teljast vel borgið í höndum þess. Mun það verja alt að 4 þús. kr. árlega næstu 2 árin í þessu skyni.

Þá kem jeg að öðrum mikilsverðum lið í starfsemi fjelagsins, og er það söfnun aflaskýrslna. Hefir forsómun í þessu efni oft komið okkur í koll. Fjelagið hefir undanfarið reynt nokkuð til að bæta úr því, en söfnunin raunar gengið nokkuð seint, en fjelagið mun alls ekki hugsa sjer að láta þar staðar numið. Er það engum vafa undirorpið, að það er eitt mesta nauðsynjamál fyrir sjávarútveginn að geta fengið, helst mánaðarlega, nokkurnveginn ábyggilegar skýrslur um, hvað mikið sje af fiski til í landinu, svo hægt sje að haga sölu fiskjarins og öðru eftir því.

Jeg hefi nú í fám orðum leitast við að upplýsa, hvernig fjelagið verði styrk sínum, og vænti jeg, að flestir verði sammála mjer um það, að fjelagið hafi furðu miklu til vegar komið með honum. En úr því jeg fór á annað borð að minnast á andann í ræðu hv. þm. Snæf., þá get jeg ekki annað en minst ofurlítið á annað atriði, sem honum viðkemur. Brtt. þessa hv. þm. hníga allar að læknisfræði og heilbrigðismálum. Þetta finst mjer lofsvert, því þetta er hans svið; þar hefir hann sjerþekkingu og þar á hann að vera. En þegar jeg nú viðurkenni, að hann beri meira skyn á slíkar fjárveitingar en jeg, þá ætlast jeg líka til, að hann geti hugsað sjer þann möguleika, að jeg hefði nokkru meiri reynslu og þekkingu í þeim efnum, sem sjávarútveginn snerta, en hann og hans stjettarbræður. Jeg hefi, eins og áður er tekið fram, viljað hækka styrkinn til Fiskifjelags Íslands um 10 þús. kr. Það er auðvitað ekki nema von, að mönnum, sem ekki bera mikið skyn á þessar sakir, finnist lítil sparnaðarviðleitni birtast í þessu. En ætli það sje ekki svo, að það sje jafnan nokkurt álitamál, hvað sje rjettur og sannur sparnaður. Nú er það líka svo, að í fjárlagafrv., eins og það kom frá háttv. Nd., er gert ráð fyrir, að fjelagið kosti eftirleiðis útgáfu Almanaks íslenskra fiskimanna, og það er ekki síst með tilliti til þessa, að jeg hefi farið fram á þessa hækkun til fjelagsins. Hvað sú útgáfa kostar, veit jeg raunar ekki, en líklegt þykir mjer, að það nemi að minsta kosti 7–8 þús. kr., ef hún á að vera vel af hendi leyst; tel jeg fulla þörf á, að hún verði fullkomnari en hingað til. Mjer er kunnugt um, að í almanakið vantar skip og báta, sem bygðir hafa verið á síðari árum, en aftur ýms skip og bátar tekin þar upp, sem um árabil hafa verið úr sögunni. Að öllu þessu athuguðu verð jeg að vona, að hv. deild muni fallast á till. mína, og vil jeg þá líka vænta þess, að hv. þm. Snæf. misvirði það ekki við mig, þó jeg sjái skyldu mína í því að standa á verði um sjávarútveginn eins og hann um læknisfræðina.

Áður en jeg sný mjer frá þessu, vil jeg minna hæstv. stjórn á það, að til er sjóður, sem heitir Fiskiveiðasjóður. Í reglugerð hans er svo ákveðið, að honum skuli varið til að veita lán til skipakaupa og útgerðar. Nú er það alkunnugt, að mikið af honum hefir lent í höfninni í Reykjavík, og mun það lán hafa verið veitt með lítilli heimild. Um þetta fje þyrfti að losa sem allra fyrst. Það er mjög nauðsynlegt, að lánssjóður þessi verði ekki festur á þessum stað.

Þá vil jeg víkja að hinum 2 brtt. mínum. Eru þær báðar við 18. gr. Fer hin fyrri í þá átt að hækka fjárveitinguna til Stefáns Stefánssonar póstafgreiðslumanns á Eskifirði. Fjárveiting þessi er ellistyrkur. Á þessum lið fjárlaganna eru margir póstafgreiðslumenn og ekkjur þeirra. Flestar eru þessar fjárveitingar smáar, 200–300 kr., nema ein, 1200 kr., til Friðriks Möllers. Hann hefir gegnt störfum í þjónustu landsins milli 30–40 ár og rækt þau með heiðri og sóma, enda hefir þingið viðurkent það með því að veita honum 1200 kr. styrk árlega í viðurkenningarskyni. Líkt er um mann þann, sem jeg sæki um styrk fyrir. Hann hefir verið póstafgreiðslumaður í 30 ár, fyrst á Fáskrúðsfirði og síðan á Eskifirði, þangað til hann ljet af störfum við síðustu áramót. Hann tók við á Eskifirði af Friðrik Möller og hefir verið þar rúm 20 ár. Maður þessi er mjög hniginn að aldri og á aldraða konu. Hann er sömuleiðis mjög eignalítill og á lítillar hjálpar von hjá börnum sínum. Hann á tvo sonu, mjög góðum hæfileikum búna, en að sama skapi heilsuveika, Annar þeirra hefir verið hjer í Reykjavík á annað ár til lækninga, og raunar fengið nokkra bót meina sinna, en þó ekki meira en svo, að hann verður að hafa sjerstakan útbúnað í sæti sínu í skrifstofu þeirri, sem hann vinnur í. Hinn dvaldi rúmt ár erlendis sjer til heilsubótar, en sökum fjárskorts gat hann ekki öðlast þá heilsubót, sem annars hefði mátt vænta. Heilsa þeirra beggja er því á mjög völtum fæti. Verð jeg því að vænta, að úr því að hv. þing telur skyldu sína að veita þessum manni ellistyrk, þá sjái það sjer fært að hafa hann ekki lægri en jeg hefi farið fram á. Það virðist ekki nema rjettmætt, að þessi maður væri styrktur svo, að hann þyrfti ekki að leita til sveitar, en það er óumflýjanlegt, ef styrkurinn er ekki nema 300 kr. Tvö örvasa gamalmenni lifa ekki á því. Og þessi fjárveiting, sem ætluð er Friðrik Möller, og hin, sem ætluð er Stefáni Stefánssyni, eru ekki samræmanlegar. Að vísu hefir Möller verið lengur í þjónustu hins opinbera, en hann á við ólík kjör að búa, þó jeg skuli ekki fara í samanburð á kringumstæðum þessara manna. Kringumstæðum Stefáns hefi jeg lýst að nokkru og fullyrði, að sú lýsing er rjett, enda treysti jeg hv. deild til að bera ekki brigður á það. Að lokum skal jeg aðeins geta þess, ef það kynni að hafa einhver áhrif, að þessi till. er alls ekki af því fram komin, að þessi maður sje stefnubróðir minn; það er hann alls ekki. Þetta er því hvorki flokksmál eða venslamál, heldur aðeins rjettlætismál, og vona jeg þess vegna, að háttv. deild samþykki till.

Þá kem jeg að þriðju og síðustu brtt. minni, sem er líka við 18. gr., þar sem jeg legg til, að fjárveitingin til Þorsteins Gíslasonar falli niður. Eins og hv. þdm. vita, er þessi fjárveiting komin inn nú í hv. Nd. og sem viðurkenning til Þ. G. sem skálds. Það sje fjarri mjer að draga úr því, að þessi maður eigi fulla viðurkenning skilið; en jeg vil sem fyr gæta jafnrjettis. Að vísu er jeg ekki bær um að dæma skáldskap, en þegar menn nú sjá sjer fært að taka þennan mann upp í fjárlögin, þá dettur mjer í hug, hvort við gerum ekki einhverjum öðrum órjett með því að setja hann hjá. Jeg dreg ekki dul á það, að sá maður, sem jeg sveigi hjer sjerstaklega að og tel, að kenni misrjettis. ef Þ. G. er veittur styrkur, en hann settur hjá — það er Einar Benediktsson. Jeg ætla mjer ekki að fara í jöfnuð á þessum mönnum, en það legg jeg óhikað undir úrskurðarvald hv. deildar, að munurinn er ekki meiri en það, að þar sem annar er, þar eiga báðir að vera.

Jeg játa, að mjer er ekki óljúft, að Þ. G. fái að standa, en fari svo, sje jeg mjer ekki annað fært en að koma við 3. umr. með brtt. um, að Einar Benediktsson fái líka 2 þús. kr. styrk.

Jeg skal ekki þreyta hv. deild meira, en jeg treysti því, að hún að athuguðu máli sjái sjer fært að greiða að minsta kosti tveim fyrri brtt. mínum atkv., hvernig sem fer um þá þriðju.