31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

39. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg skal geta þess, að allshn. hefir tekið til athugunar brtt. á þskj. 170, en sá sjer ekki fært að vera með þeim. Gæti jeg þó fyrir mitt leyti fallist á 6. brtt., um það, að kosningarnar fari fram í 12. viku sumars, þó jeg hyggi það ekki hafa mikla þýðingu fyrir kjósendurna.

1. brtt. á sama þskj. er um það, að skifta megi kjördæmunum í 3 kjördeildir. Því getur nefndin heldur ekki mælt með. Reynslan hefir verið sú, að sumstaðar hefir verið nógu erfitt að fá menn í eina kjördeild, hvað þá heldur tvær, og enn meiri örðugleikar yrðu þá á því, að fá menn í þrjár kjördeildir. Af þessum ástæðum viljum við aðeins hafa flest tvær kjördeildir. Má raunar vel vera, að það sje satt, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) segir, að svo hagi til fyrir vestan, að þar sje heppilegast að hafa 3 kjördeildir, en við verðum þó að telja þessa leið varhugaverða.

Þá hefir allshn. ekki heldur tekið ákvörðun um brtt. á þskj. 222, en það má teljast leiða af sjálfu sjer, að hún sje því mótfallin, að einstöku kjördæmum sje leyft að hafa kosningar á öðrum tíma en hinum venjulega kjördegi. Er það vitanlegt, að það leiðir ekki til annars en ruglings og ýmsra óþæginda við kosningarnar.

Hvað sem annars breytingunum á kosningalögunum viðvíkur, þá vil jeg þó sjerstaklega leggja áherslu á 1. gr. frv., að gefa sýslunefndum heimild til að skifta hreppunum í 2 kjördeildir og að færa daginn í 11. eða 12. viku sumars. Jeg þarf ekki nú að fara að endurtaka ástæðurnar fyrir því að velja einmitt þann tíma, því hv. dm. hafa heyrt þær. En jeg vildi fá tækifæri til að fara nokkrum orðum um það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði. Hann taldi mjög óheppilegt að láta kosningarnar fara fram að vorinu, einkum ef svo stæði á, að stjórnin væri í minnihl. og þm. kröfðust aukaþings. Jeg minnist þess nú ekki, að ákvæði sjeu um það í stjórnarskrá vorri, að þm. geti krafist aukaþings. Það var til í gömlu stjórnarskránni, að mig minnir. Sú ástæða hefir því enga þýðingu og getur varla komið til greina.

Jeg finn nú ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti, að aðalbreytingin á kosningalögunum, sú, sem jeg nefndi, nái fram að ganga. Eins og hv. þm. vita, þá er fram komið frv. um að afnema heimakosningar. Er þá einnig fyrir þær sakir mikils virði að fá inn í kosningalögin ákvæði, er heimilar sýslunefnd að skifta hreppi í tvær kjördeildir í þeim hreppum, sem erfiðast er að sækja kosningar.

Að lokum vildi jeg leyfa mjer að óska þess, að 6. brtt. á þskj. 170 verði borin upp á undan 2.–5. brtt.