31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

39. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Stefánsson:

Viðvíkjandi brtt. þeim, sem hjer liggja fyrir, um skiftingu hreppa í tvær kjördeildir og flutning kjördagsins til 12. viku sumars, er það að segja, að við flm. teljum ekki máli skifta, hvort þær verða samþ. eða feldar, en sjáum þó ekki beinlínis ástæðu til að mæla með þeim. Aðalatriðið teljum við færslu kjördagsins til vorsins, og skiftir þá ekki verulegu máli, hvort hann er viku fyr eða seinna.

Aftur á móti koma till. þeirra hv. 2. og 4. þm. Reykv. fastar móti stefnu frv. Þeir vilja halda fast við haustkjördaginn, og er ástæðan sú, að sjómenn og aðrir kaupstaðakjósendur eigi örðugra með að sækja kosningar að vorinu. Það hefir áður verið sýnt, hve lítil rök þetta hefir við að styðjast. Það er nefnilega svo, að þó að þeir sjeu ekki heima kosningadaginn, þá er þeim auðvelt annaðhvort að hafa kosið áður en þeir fóru að heiman, eða kjósa þar, sem þeir eru staddir á kjördegi.

Hvað annirnar snertir, þá er bæði það, að í kaupstöðum er fljótgert að neyta kosningarjettar síns, og í annan stað verður ekki sjeð, að verkamenn hlífist við að gera stærri verktafir, þó það sje af öðrum ástæðum og e. t. v. fyrir stærri sakir. En í sveitum er það svo, að á vorin, þegar nóttin er björt sem dagur, geta menn lagt meiri vinnu á sig fyrir töfina, ef mönnum þykir sjer þörf á. Og minna tjón er að því að sleppa niður eina dagstund vinnu að vorinu, en hvort sem væri, annaðhvort að eiga fjenað sinn í hættu og verða e. t. v. fyrir tjóni, eða geta ekki neytt kosningarrjettar síns.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði mikið um það, að kunnugustu menn hefðu valið þann kjördag, sem undanfarið hefir verið hafður, eftir mikla og nákvæma íhugun. Það er mjer líka fjarri að efast um það, að þeir hafi valið hann eftir bestu vitund. En síðan hefir reynslan fengist og sannfært menn um, að dagurinn hefir ekki verið sem best valinn. Þá sagði hann, að mörgum væri auknir örðugleikar með flutningi kjördagsins, en jeg þykist hafa sýnt hið gagnstæða. Því ekki tel jeg það með örðugleikum, þó menn, sem verða fjarri heimili sínu, þegar kosningarnar fara fram, þurfi að gæta þess, sem gæta þarf, til þess að neyta kosningarjettar síns samt sem áður, annaðhvort áður en þeir fara að heiman, eða þá þar, sem þeir eru staddir á kjördaginn.

Af öllum þessum ástæðum get jeg ekki fallist á brtt., og vænti, að hv. deild verði sömu skoðunar.