31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

39. mál, kosningar til Alþingis

Björn Líndal:

Það er ástæðulaust að tala langt mál, því eftir því sem atkvgr. fjell við 2. umr., mun nokkurnveginn augljóst, hvernig málið verður afgreitt hjeðan úr deildinni.

Það er merkilegt, að enn hefir engin almenn ástæða verið færð fram fyrir því, að nauðsyn beri til að breyta kjördeginum. Þetta hlýtur altaf að verða álitamál, og aldrei verður sá dagur fundinn, sem öllum líki. Menn eru að reyna að færa sönnur á mál sitt, aðallega með ýmsum veðurspám, en geta þó ekki bent á eitt einasta dæmi þess, síðan fyrst var farið að nota haustkjördaginn, að óveður hafi hamlað mönnum frá að sækja kjörfund. Þvert á móti hefir aðsókn altaf verið að aukast. Og það hygg jeg, að þessi tími, sem nú á að samþykkja, 11. eða 12. vika sumars, sje allra óheppilegasti tíminn fyrir mitt kjördæmi. Þá stunda mótorbátarnir veiðarnar af sem allra mestu kappi, og kaupafólk er þá á leiðinni upp í sveitirnar. Af þessu leiðir annríki svo mikið, að fólk getur ekki mist af neinum tíma til að hlusta á landsmálafundi. Tel jeg, að það sje ekki svo lítil ástæða, því þangað sækja kjósendur þó margir hverjir megnið af sínu „pólitíska“ viti. Sje jeg því ekki, að nein rök hafi verið færð fram fyrir því, að þessi breyting yrði til bóta. Hún myndi þvert á móti verða flestum kjördæmum landsins til hins mesta óhagræðis og svifta fjölda manna tækifæri til þess að kjósa. Og þótt hugsast gæti, að annar kjördagur væri 2 eða 3 kjördæmum hagkvæmari, held jeg ekki sanngjarnt að breyta kjördeginum þeirra vegna á kostnað allra hinna.