16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Jeg á eina brtt. með hv. 5. landsk. þm. (JJ), sem jeg mintist ekki á í fyrstu ræðu minni, af því að þá hafði hv. fyrri flm. hennar ekki enn talað. Brtt. er um júbil-ljósmóðurina.

Það vill nú oft vera svo, þegar menn vilja koma einhverju fyrir kattarnef, að vísað er til þess, hve hættulegt fordæmi það kunni að vera. Hæstv. forseti (HSteins) notaði þetta mjög; sagði hann, að þessi till. gæti orðið til þess að draga konu úr hans kjördæmi einnig inn í fjárlögin. En ef við lítum á 18. gr. fjárlaganna, þá verður fyrir okkur margskonar fólk, kennarar, póstmenn, rithöfundar, að jeg nú ekki tali um embættismannaekkjurnar, og í hvert skifti, sem eitthvað af þessu var sett inn, var vitanlega skapað fordæmi, og þó er nú svo, að aldrei hafa allir úr þessum flokkum verið teknir. Síður en svo. Þingið hefir sem sagt treyst sjer til að gera upp á milli þeirra og aðeins tekið þá, sem síst máttu setjast hjá. Eins viljum við flm., að farið sje að hjer. Við leggjum til, að kona, sem gegnt hefir í 50 ár mjög þýðingarmiklu opinberu embætti, sem ætíð hefir búið við fátækt, en þjónað embætti sínu með sjerstakri atorku og skyldurækni, sje tekin inn í fjárlögin. Og við stöndum ekki einir uppi flm. með þessa till. Jeg varð var við það, þegar jeg var staddur á Eyrarbakka í sumar, að það var einróma álit allra, að þessi kona væri þessi 50 ár búin að vinna hjeraðinu óvenjulegt og ómetanlegt gagn og ætti fylstu viðurkenningu skilið. Og jeg verð líka að segja það, að það, sem hefir sjerstaklega gert það að verkum, að jeg tók að mjer að flytja þessa brtt. ásamt hv. 5. landsk. þm., var það, hvernig mjer leist á konuna sjálfa. Jeg vona það hneyksli engan, — þessi kona er nú 75 ára, — en jeg játa, að hún vann hjarta mitt við fundi okkar á Eyrarbakka. Fyrir þá, sem lifa inni á krókastigum „diplomatiunnar“, er það hressandi viðbrigði að hitta svona konu, sem talar eins djarflega og hún gerði. Og einmitt í samtalinu við hana komst jeg að raun um, með hve miklum djarfleik og dugnaði hún hefði unnið lífsstarf sitt.

Og svo jeg víki aftur að fordæminu. Hið háa Alþingi þarf sannarlega ekki að vera hrætt við að styðja yfirsetukonu, sem búin er að vinna í 50 ár. Það er ekki nema góðra gjalda vert að gera það. Vel má vera, að konan, sem hæstv. forseti talaði um, eigi líka að koma inn í fjárlögin, en mjer er nær að halda, að ef hún væri annar eins skörungur og þessi, þá myndi hæstv. forseti ekki hafa hikað við að koma strax með hana, þó ekkert fordæmi væri. (HSteins: Við sjáum til við 3. umr.).

Menn verða að gæta þess að hengja sig ekki um of í meginreglurnar; alt, sem er óvenjulegt, hlýtur að brjóta þær og koma í bág við fordæmin. Og jeg ætla, að það sje beinlínis hinu háa Alþingi til heiðurs að viðurkenna hið langa og þýðingar mikla starf þessarar konu. Og jeg vona líka, að hæstv. forseti styðji brtt. Mjer finst, að það væri í fullu samræmi við dugnað hans við að styðja læknastjettina, því yfirsetukonur heyra undir hana að nokkru leyti.

Jeg kemst ekki hjá því að minnast á brtt. um Árna Theódór Pjetursson. Hv. 5. landsk. þm. var mjer sammála um hina brtt., en síður en svo um þessa. En jeg vil benda hv. 5. landsk. þm. á það, að ekki er verið að deila um, hvort það væri rjett, að maðurinn fjekk styrkinn eða ekki. Landsstjórnin gerði það að ráðum mentamálanefndar. En aðalatriðið er það, að maðurinn er búinn að fá loforð fyrir 500 kr. á ári, þangað til hann fær annað starf. Það má vel vera, ef þetta mál kæmi fyrir dómstólana, að þeir dæmdu svo, að fjárlögin væru ekki bindandi nema fyrir eitt ár. En ef við lítum á þetta frá sjónarmiði mannsins sjálfs, hvernig á hann þá að líta öðruvísi á en að þetta sje beint ákveðið loforð um það, að hann fái eftirlaunin þangað til hann fái starfið? Það er nú líka talið svo, að sje einhver settur í 18. gr., þá eigi næsta þing að láta hann standa. En þegar svona er, að beinlínis er sagt: „Þú skalt fá eftirlaun þangað til þú færð starfið,“ þá sje jeg ekki, hvernig þingið fer að breyta þessu. Og jeg verð að líta svo á, að hv. fjvn., sem jeg hefi hrósað svo mikið í dag, hafi alls ekki athugað þetta loforð.

Þegar jeg skipaði kennara í stað þessa manns konu, sem heitir Viktoría, þá leit jeg svo á, að maðurinn fengi 500 kr. á ári; annars hefði jeg ef til vill skipað hann. Jeg vona, að hv. þd. geri sjer þetta ljóst. Er rjett, að þingið haldi loforð sín eða ekki? Og jeg hygg, að það verði síst til að halda við heiðri Alþingis, að það rjúfi heit sín. Og því vona jeg, að háttv. fjvn. sjái sjer fært að taka brtt. sína aftur.

Jeg er mjög sammála hæstv. forsrh. (JM) um veðurathuganastöðina og get að mestu vísað til þess, sem jeg sagði áður um það mál. Jeg vil aðeins enn benda á það, að þetta er alstaðar talið mikið menningaratriði. Og það myndi vekja ótrú á okkur, ef við færum að leggja stöðina niður. Það þarf að vera samband á milli landanna um þetta. Ef eitt landið gengur úr skaftinu, þá fækkar möguleikunum fyrir að spá rjett. Okkar veðurfræði er nú mikill styrkur að veðurskeytum frá Grænlandi. Menn verða að gera sjer ljóst, að það er afarþýðingarmikið fyrir þjóðina, að við getum fullkomnað þetta sem best, svo veðurspárnar rætist sem oftast. Það getur bjargað mörgum mannslífum oft og einatt, ef viðvaranir koma um stórviðri, sem í aðsigi eru. Og er margsýnt annarsstaðar, hve mikla þýðingu veðurspárnar hafa.

Að því er snertir kennarann við mentaskólann, þarf jeg ekki annað en vísa til fyrstu ræðu minnar, þar sem jeg sagði, að jeg hefði aðeins lofað honum stöðu í eitt ár, en ekki bundið það frekar. Ástæðurnar til þess, að jeg gaf loforðið, voru áskoranir frá rektor skólans og ýmsum fleiri, bæði innan og utan skólans,

Mjer þótti leiðinlegt, að hv. 2. þm. S- M. (IP) skyldi mæla gegn því, að Hítardalshjónin fengju þennan litla styrk. Og jeg skildi hv. þm. svo, að húsfreyjan á Staðarhrauni hefði eytt 1000 kr. í þessu skyni. Jeg mintist á það við hv. 2. þm. G.-K. (BK), hvort hann hefði viðhaft slík orð. En hann kvaðst hafa sagt, að kærleikur hennar væri meira virði en 1000 kr. Og það er vissulega satt. En vitanlega hefir ferðin kostað hana mjög lítið.

Hjer á aftur að draga fram fordæmið. Jeg er ekki hræddur við það. Þá þyrfti að standa eins á, að eins mikil fátækt væri fyrir hendi, eins mörg börn. En ef svo væri, teldi jeg fjeð ekki eftir, sem þingið legði til slíkra heimila.

Jeg vildi óska, að hv. 2. þm. S.-M. hefði átt tal við húsfreyjuna á Staðarhrauni. Hún lýsti svo vel heimilislífinu og hvernig foreldrarnir leggja að sjer til að forða börnunum frá fátæktarstimplinum. Því enn er það svo, þó það ekki ætti að vera. að það er skoðað sem mikill blettur að þiggja sveitarstyrk. Og öll barátta foreldranna gengur í þá átt að forðast að sá blettur falli á fallega drengjahópinn. Jeg hefi svo mikla samúð með þeim, að jeg vildi glaður greiða 10 atkv. með þessum styrk, ef jeg ætti þau. Því hverjir leggja meiri skerf inn í þjóðarbúið en þessi hjón og hverjir eiga meiri styrk skilinn en þeir sem berjast fyrir slíkum barnahópi? Og þjóðin gæti vel risið undir þessum styrk. þó hann væri tífaldur. Jeg vona því, að hv. þd. mæti þessu með samúð.