31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

39. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Það er alveg rjettilega tekið fram hjá hv. þm. Ak. (BL), að engin rök hafa enn verið færð fram fyrir því, að nauðsyn væri til að flytja kjördaginn. Hv. þm. V.-Sk. (JK) kvað ákvæði brtt. á þskj. 222 koma ruglingi á kosningarnar, en engin rök kom hann samt með fyrir því. Þá vildi hann hrekja það, að til þess gæti komið, að aukaþing yrði kallað saman, þó kosningar færu fram svo langt frá samkomutíma Alþingis, eins og frv. ætlaðist til. Jeg hafði þó greinilega bent á, hvernig það mætti verða. Það er raunar satt, að konungurinn kallar Alþingi saman, og honum er auðvitað vel við hverja þingræðisstjórn, en þegar hún er ekki lengur þingræðisstjórn, þá ber nauðsyn til að kalla þing saman til að mynda nýja stjórn, og ekki myndi konungur setja sig á móti því. Þá kvað hv. 1. þm. N.-M. (HStef) þetta engum óþægindum valda fyrir kaupstaðabúa. En nú er það svo, að fólkið fer oft og tíðum alveg fyrirvaralaust í atvinnu og atvinnuleit, og hefir þá engin umsvif til að fara niður á skrifstofu bæjarfógetans til að kjósa þar. Menn eru þann tíma í þeim hug, að þeir hugsa um það eitt að bjarga sjer og afla sjer einhverrar atvinnu, en síður um hitt, að skila atkvæði sínu. Reynslan hefir því sýnt, að þessi dagur er illa til þess fallinn, að hann verði gerður að kjördegi.

Jeg skil ekki, hvað það þýðir, að segja að verkamenn muni ekki hlífast við að hefja verkfall, og þá geti þeir eins vel lagt niður vinnu til þess að neyta kosningarrjettar síns. Þeim er heimilt samkvæmt lögum að ganga úr vinnu til þess að kjósa. Og veit jeg ekki til þess, að atvinnurekendur hafi reynt að ganga á móti lögunum í þessu efni, nema þá þeir, sem teljast verða af allra lakasta tæi. Þetta atriði kemur því ekki málinu við, er engin röksemd, heldur aðeins sagt út í loftið.

Jeg fæ ekki annað sjeð en að þeir, sem mæla með flutningi kjördagsins, slái út í hina og aðra sálma. En færa röksemdir fyrir máli sínu hefir þeim enn ekki tekist, hvað sem samþykt verður.