02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

39. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jónas Jónsson):

Allshn. hefir komið sjer saman um, að þessu máli yrði, að lokinni 2. umr., vísað til stjórnarinnar og henni falið að rannsaka það og leggja árangur rannsóknarinnar fyrir næsta þing. Nú um nokkur ár hefir 1. vetrardagur verið lögfestur kjördagur. Hefir það í aðalatriðum gefist fremur vel, en það má að mestu þakka tilviljun einni. Um það leyti er allra veðra von og tilviljun ein, að stór óhöpp hafa ekki orðið með veður. Hefir þetta vakið almennan áhuga manna á Norður- og Austurlandi fyrir því að færa kjördaginn til vorsins. Fyrir því hafa þm. N.-M. borið fram þetta frv. Er það ekki flokksmál, því annar telst til Íhaldsflokksins en hinn til Framsóknar. Jeg er fæddur norðlendingur og minnist frá æsku minni stórhríða um þetta leyti, og mun vera óhætt að fullyrða, að hríðarveður hafi ráðið nokkru um úrslit einstakra kosninga á síðustu árum. Jeg nefni sem dæmi, að 1919 mætti jeg hjer í Rvík á kjördaginn þáv. þm. Árn., sem hafði setið á þingi um 20 ár. Það var kalsaveður hjer. Hann sagði við mig: „Nú er jeg fallinn, úr því svona viðrar, nú verður lítið kosið ofan til í Árnessýslu.“ Þar, sem hann hafði fylgi, var kosningin illa sótt fyrir þessa sök. Sama mundi útkoman að líkindum hafa verið nú við síðustu kosningar í Árnessýslu, hefði illa viðrað kosningadaginn. Þá myndi núverandi 2. þm. Árn. hafa fallið, ef uppsýslumenn hefðu, sökum veðurvonsku, átt erfitt með að koma á kjörfund.

Jeg hefi tekið Árnessýslu, af því þar er hægara að sækja kosningar en í mörgum öðrum kjördæmum, t. d. á Norður- og Austurlandi. En þó getur veðrið haft mikil áhrif á kosningarúrslitin þar. Hygg jeg, að miklu minna sje um blindbylji á haustin í Árnessýslu en víða á Norður- og Austurlandi.

Eins og tekið er fram í nál., ræddum við málið rækilega í allshn. Er mjer óhætt að fullyrða, að allir hafi viðurkent, að núverandi tilhögun væri mjög óheppileg að þessu leyti. Til mála kom í hv. Nd. að breyta frv. þessu og hafa tvo kjördaga, með því að sterk mótmæli hafa komið úr kaupstöðum gegn því að færa kjördaginn yfir á sumarið. Niðurstaða allshn. varð því sú, að vísa málinu til hæstv. stjórnar, í því trausti, að hún rannsakaði það og beri það aftur fram, helst í einhverri þeirri mynd, að siglt verði fram hjá þessum annmörkum, sem leiða af sameiginlegum kjördegi fyrir alla þjóðina. Sveitafólkið er knúð til að kjósa í hvaða veðri sem er að haustlagi, en mörgu bæjarfólki er ókleift að kjósa að sumrinu, fjöldi þess er dreifður hjer og þar við atvinnu. Þetta er mikið vandamál; en maður verður að hafa það hugfast, að það dugar ekki að binda sig of mikið við útlendar venjur, þar sem járnbrautir og akvegir eru, öll bestu samgöngutæki, veður mild á öllum tímum árs, og ekki árstíðavinna, sem hamlar, eins og víðast hvar er í Norðurálfu, nema hjer; þar má kjósa á hvaða tíma árs sem er. En við verðum að taka tillit til þess, hvað á best við á okkar landi, sem er svo erfitt yfirferðar og strjálbygt. Býst jeg við, að við verðum að haga vali kjördagsins mjög eftir staðháttum, því sjálfsagt er að reyna að stilla þannig til, að kjósendur í hverju kjördæmi út af fyrir sig eigi sem hægast með að nota sinn rjett. Sumir halda fram, að miður heppilegt sje að vera að undirbúa kosningar í sveitakjördæmum og kjósa á vorin, en kjósa ekki í kaupstöðum fyr en á haustin. Jeg held ekki, að þetta myndi hafa nein teljandi áhrif á úrslit kosninganna í kaupstöðum, með því að það er kunnugt, að hver einstakur frambjóðandi og hver flokkur hefir sína eigin hugmynd um, hvernig kosningamar falla í öðrum kjördæmum, þar til talið er. Menn spá, en það er nokkurskonar dægradvöl, líkt og spil eða tafl.

Minna má á það, að langlengst af þeim tíma, síðan Alþingi var endurreist, hafa kosningar ekki farið fram á sama tíma um alt land. Jafnvel fram undir aldamótin kom það fyrir, að maður, sem fjell í einu kjördæmi, gat boðið sig fram í öðru. Um það yrði þó ekki að ræða nú.

Þá var annað atriði í frv., sem við töldum til mikilla bóta, og það er að gera kleift að skifta stórum hreppum í fleiri kjördeildir, og er ætlast til, að það ákvæði komi aftur í bið væntanlega stjórnarfrv. Dálítill meiningamunur varð um kjörseðlana, svo sem nál. skýrir frá. Er sennilegt, að einhver ný atriði komi fram í kosningalögunum við rannsókn hæstv. stjórnar, sem tiltækilegt væri að breyta. Í hv. Nd. var minst á að breyta um aðferð við að merkja seðlana, leggja niður stimpilinn og nota blýantskross. Þetta hefir sína þýðingu, með því að stimpillinn hefir þann galla að geta flekkað seðilinn og gert hann auðkennilegan og þá um leið vafasaman.

Jeg vildi mega óska, að hæstv. forsrh. ljeti að einhverju leyti í ljós skoðun sína á þessu máli, sem allshn. skýtur sjerstaklega til hans aðgerða, þó vitanlega sje ekki hægt að búast við ákveðnum svörum nema um sum atriði.