09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Pjetur Ottesen:

Jeg á brtt. við frv. þetta á þskj. 226. Fer hún fram á, að á eftir síðustu málsgr. 1. gr. 1. 1922, um breyting á sveitarstjórnarlögunum, komi ný málsgrein svohljóðandi: „Svæðið frá Reykjanestá að Garðskaga telst í þessu efni liggja við Faxaflóa.“ Vil jeg nú gera stutta grein fyrir því, af hverju þetta er nauðsynlegt.

Svo er mál með vexti, að nýlega hefir fallið dómur í útsvarsmáli í Sandgerði. En þar er svo á litið, að hin landfræðislegu takmörk Faxaflóa hjer að sunnanverðu sje Garðskagi en ekki Reykjanes, sem frá öndverðu og alt til þessa hefir verið álitið að takmarka flóann hjer að sunnan. Skal jeg ekkert um þann dóm segja hjer, enda tjáir ekki að deila við dómarann. Svo hagar hjer til, að Sandgerði liggur rjett sunnan við Garðskagann. Þar er aðalbækistöð mótorbáta við allan Faxaflóa á tímabilinu frá nýári til vertíðarloka. Má víst segja, að mótorbátaútvegurinn hjer við flóann byggist á því, að hann geti haft þarna afdrep og haldið þaðan út á þessu tímabili, því það er eini staðurinn, sem bátar frá veiðistöðvum hjer við innanverðan flóann geta stundað veiðar frá, svo arðsvon sje um þetta leyti árs. Hinsvegar sækja þeir þó á þau fiskimið, sem vafalaust er, að sjeu að mestu innan Faxaflóa, þrátt fyrir það, þó flóinn sje talinn takmarkast af Garðskaga. Fiskjarins er með öðrum orðum aflað innan takmarka Faxaflóa, þó að honum sje gert og hann saltaður ýmist í landi eða á höfninni í Sandgerði, sem samkvæmt þessum nýfelda hæstarjettardómi telst að liggja utan við hin landfræðislegu takmörk Faxaflóa.

Það leiðir þó af sjálfu sjer, að samkvæmt ákvörðun og anda þeirra fyrirmæla sveitarstjórnarlaganna, þar sem ræðir um útsvarsskyldu, þar sem veiði er stunduð við sama fjörð og flóa, þá eigi þau í orðsins fylsta skilningi við um þá menn úr öðrum veiðistöðvum hjer við Faxaflóa, sem veiðar stunda frá Sandgerði, þó niðurstaða hæstarjettar hafi orðið þessi. En til þess að þessi dómur raski ekki í neinu þessum ákvæðum laganna, hvað Faxaflóa snertir, þá hefi jeg borið þessa brtt. fram, að svæðið frá Reykjanestá að Garðskaga teljist í þessu efni liggja við Faxaflóa.

Þess má ennfremur geta í þessu sambandi, að Sandgerði er eign tveggja manna, sem svo að segja hafa öll ráð þessara viðlegumanna í hendi sjer, að því er snertir þau gjöld og þær kvaðir, er þeir verða að inna af hendi fyrir þau hlunnindi að eiga þarna innhlaup. Veit jeg því, að hv. deild finnur og skilur, hversu mikil sanngirni er í þessari till., og vænti þess, að hún samþykki hana.

En það er líka önnur hlið á þessu máli, sem gerir þessa breytingu ekki síður nauðsynlega. Eins og mönnum er kunnugt, er vöknuð hjer á landi sterk hreyfing í þá átt að neyta allrar orku til þess að fá landhelgina rýmkaða, svo allir firðir og flóar sjeu friðaðir fyrir botnvörpuveiðum. Þetta er óumræðilegt nauðsynjamál, og á því mun útvegur vor í framtíðinni velta. Það sjá því allir, hver munur yrði á því — er slík hamingjustund rynni yfir þetta land — hvort svæðið milli Garðsskaga og Reykjanestár teldist til Faxaflóa eða ekki. Þetta eitt út af fyrir sig gerir það því alveg nauðsynlegt og sjálfsagt að samþykkja þessa till., og þó menn væru ef til vill ekki sannfærðir um nauðsyn þeirrar breytingar, sem hv. þm. Mýra (PÞ) leggur til, að gerðar verði á sveitarstjórnarlögunum, þá gerir þessi till. það nauðsynlegt, að breytingin gengi fram. Vil jeg því leyfa mjer að beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann hagi svo atkvæðagreiðslunni, að þessi brtt. geti orðið samþ. þó frv. greinin kunni að verða feld.