08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Jón Baldvinsson:

Jeg býst við, að það sje rjett hjá hv. flm. (ÞórJ), að það þyki mikill menningarbragur að hafa hóflegan starfstíma. Og viðleitnin í þá átt hefir gengið út á það að fá vinnutímann styttan. Jeg þarf þó ekki að fara mörgum orðum um frv. þetta, en get strax lýst yfir því, að jeg er andvígur því, sem það hefir að geyma.

Eftir ræðu hv. flm. (ÞórJ) að dæma, mætti halda, að talsvert sleifarlag væri á starfseminni á skrifstofum ríkisins. Það hefði því legið beinast við fyrir hann að beina því til hæstv. stjórnar, að hún hefði betra eftirlit með því, hvernig unnið væri á skrifstofu hennar. Því sje það rjett, sem hv. flm. tók fram, að opinberar skrifstofur sjeu ekki opnar fyrri en á 11. stund fyrir hádegi, þá er það auðvitað engu öðru að kenna en slælegu eftirliti af hálfu stjórnarinnar. Og jeg er ekki heldur andvígur því, ef það sannast, að slík brögð sjeu að þessu sem hv. flm. vildi vera láta, að þá sæti hæstv. stjórn ávítun fyrir það.

Mjer er ekki fullkunnugt um lengd vinnutímans í stjórnarráðinu, en hygg, að hann sje frá 10–12 árd. og 2–4 síðd. Vel má vera, að þetta sje of skammur tími, en gífurlegt stökk má það kallast, ef nú á að færa hann upp í 8 stundir. Hygg jeg það fjarri allri sanngirni. Hitt væri náttúrlega ekki nema æskilegt, að fyrirmyndarstarfsemi ætti sjer stað á skrifstofum ríkisins, og yfirleitt finst mjer mál þetta vera svo vaxið, að athugandi sje, hvað satt sje í því, að sleifarlag sje nú á starfseminni þar. Vil jeg beina þessu til hæstv. stjórnar til íhugunar. Hitt finst mjer varhugavert að fara nú að órannsökuðu máli að lengja starfstímann með lögum.

Annars geri jeg það ekki að kappsmáli frá minni hálfu, hvort málið verði látið ganga til nefndar. En mjer finst, að ekki ætti að afgreiða það á þinginu, heldur vísa því til stjórnarinnar.